2.7.18

Rabbabarasaft og sól


Þrátt fyrir sólarleysið á suðvesturhorninu vex rabbabarinn vel og jafnvel myntan líka.
Það má því vel hugsa sér að gera rabbabarasaft til að fá smá lit í lífið.

Ef þið eruð jafn sólarþyrst og ég takið þið eftir að þessar myndir eru teknar í sól. Það er af því að þær eru ársgamlar frá því þegar sú gula lét sjá sig öðru hverju.
Við látum það ekki slá okkur út af laginu, heldur þvert á móti, þeim mun betri ástæða fyrir að skella í rabbabarasaft.


Ég skoðaði margar uppskriftir á netinu og valdi eina sem mér fannst einföld. 
Það er áhrifaríkast að hafa leitarorðið á skandinavísku t.d. "rabarbersaft".
Mér finnst saftin afar ljúffeng með sódavatni og myntan gerir þetta alveg sérstaklega ferskt.


Ég notaði saftina óspart í litlar og stórar gjafir. 
Að ofan er mynd af lítilli þakkargjöf og þetta er mynd af brúðkaupsgjöf. 
Á minnislyklinum eru myndir úr gæsun og steggjun, í pappírspokanum er peningur og þetta var með saftinni í poka "Ást í poka sem ekki má loka".


Með þessari sólríku færslu vona ég að þið fáið sól í hjartað og kannski að einhver sjóði rabbabarasaft fyrir smá lit og bragð í hversdaginn.