18.3.18

Páskaeggjaleit


Ég hef áður sagt ykkur frá páskaeggjaleitinni úti sem er núna orðin hefð í fjölskyldunni.
Þá fá fullorðnir og börn páskaegg, við felum það úti og allir skemmta sér konunglega við leitina.
Yfirleitt höfum við fengið vorveður eins og það gerist best, sólríkt en kalt. Þá höfum við gjarnan sest niður saman úti og notið þess að fá smá sól á okkur. Við höfum þó ekki látið páskahret slá okkur út af laginu en það urðu kannski ekki mjög erfiðir felustaðir fyrir valinu það árið!


Það eru ekki hefðbundin íslensk páskaegg í þessari leit heldur finnst okkur fullorðna fólkinu gaman að fá eitthvað alveg sniðið að okkur og auðvitað að smakka það sem hinir fengu! Við eigum nokkur pappaegg til þess að nota við þetta tilefni sem er notuð ár eftir ár.


Stundum passar gjöfin illa í pappaegg og þá er bara að láta hugmyndaflugið ráða.
Ég hef nokkrum sinnum notað pappírspoka enda skemmtilegt að skreyta og endurnýta þannig poka sem manni hafa áskotnast.


Eitt árið skreytti ég eggjabakka og fyllti af góðgæti


Börnin hafa hingað til fengið tvö pappaegg, annað með  gotteríi t.d. jarðarber, bláber, hlaup, súkkulaði eða ávaxtaskvísu. Í hinu egginu er lítil gjöf t.d. trekkibíll, fótboltaspil, pokémonkort eða lego. Við höfum svo pakkað eggjunum inn í mismunandi servíettur (t.d. eitt barn með blómaservíettu, næsta með jólaservíettu) þannig að litlir gormar eigi auðvelt með að finna sín egg þó þau kunni ekki að lesa og séu æst í leitinni.


Í fyrra var páskaeggjaleitin í fyrsta sinn hjá okkur, enda komin með góðan garð núna. Guttinn var mjög spenntur fyrir þessu og til þess að stytta biðina og leyfa honum að taka þátt í undirbúningunum gerði guttinn svona líka fínt páskaskilti:


Hann tók einmitt þessa frábæru mynd af skiltinu sínu sjálfur, ósvikin mynd með puttanum inn á!

Ljúfar samverustundir, ferskt loft, sól og súkkulaði fyrir sálina = mæli með.

10.3.18

Pínulitlar páskahugmyndir


Þar sem það styttist í páskana langaði mig að deila með ykkur nokkrum hugmyndum.
Venjulega hef ég keypt hefðbundnar páskagreinar (þessar með gulu blómunum) en síðasta ár ákvað ég að klippa nokkrar greinar af fallega alpareyninum úti í garði.
Mér fannst það ekki koma síður vel út auk þess sem það var ókeypis og umhverfisvænna!


Við höfum oft sent páskagotterí til vina og vandamanna í Þýskalandi.
Í fyrra fannst mér eins og enginn þyrfti á meira súkkulaði að halda en ákvað í samvinnu við guttann að senda svona ferlega sæt perlupáskaungakort.


Við fengum svo í páskagjöf svona æðisleg sumarblóm- frábær hugmynd sem að nýtist vel og þarf ekki að kosta mikið.