2.7.18

Rabbabarasaft og sól


Þrátt fyrir sólarleysið á suðvesturhorninu vex rabbabarinn vel og jafnvel myntan líka.
Það má því vel hugsa sér að gera rabbabarasaft til að fá smá lit í lífið.

Ef þið eruð jafn sólarþyrst og ég takið þið eftir að þessar myndir eru teknar í sól. Það er af því að þær eru ársgamlar frá því þegar sú gula lét sjá sig öðru hverju.
Við látum það ekki slá okkur út af laginu, heldur þvert á móti, þeim mun betri ástæða fyrir að skella í rabbabarasaft.


Ég skoðaði margar uppskriftir á netinu og valdi eina sem mér fannst einföld. 
Það er áhrifaríkast að hafa leitarorðið á skandinavísku t.d. "rabarbersaft".
Mér finnst saftin afar ljúffeng með sódavatni og myntan gerir þetta alveg sérstaklega ferskt.


Ég notaði saftina óspart í litlar og stórar gjafir. 
Að ofan er mynd af lítilli þakkargjöf og þetta er mynd af brúðkaupsgjöf. 
Á minnislyklinum eru myndir úr gæsun og steggjun, í pappírspokanum er peningur og þetta var með saftinni í poka "Ást í poka sem ekki má loka".


Með þessari sólríku færslu vona ég að þið fáið sól í hjartað og kannski að einhver sjóði rabbabarasaft fyrir smá lit og bragð í hversdaginn.

14.6.18

Þjóðlegt skraut


Það er ærin ástæða til þess að skreyta þjóðlega næstu daga. Þjóðhátíðardagurinn framundan svo ekki sé minnst á heimsmeistarakeppnina í fótbolta í Rússlandi þar sem ÍSLAND tekur auðvitað þátt!


 Þrátt fyrir fjarveru sumarsins hingað til er lúpínan tekin við sér og auðvelt að skella fallegri lúpínu í vasa.


Hérna sjást undurfallegu gleym-mér-einar í staupglasinu betur


hérna sést bakkinn með heimatilbúinn fánalengju og dagatali sem að guttinn bjó til í leikskólanum.

Fánalengjuna góðu gerði ég fyrir mörgum árum úr munsturlímböndum og nota alltaf aftur og aftur.


Eitt árið skellti ég íslensku birki í vasann


og setti þrenningarfjólur í staupglasið. 
Þetta árið eru engar þrenningarfjólur komnar í garðinn minn því miður en ég hef fundið gleym-mér-ei. Mér finnst eitthvað svo viðeigandi að setja svona smá og falleg villt íslensk blóm í vasa og verður alltaf hugsað til þjóðsöngsins og "eilífðar smáblómsins með titrandi tár".

Kerfillinn er aðeins byrjaður að taka við sér í náttúrunni og ég er ekki frá því að hann verði fyrir valinu í ár.

Ég held að það sé bara ein leið til að enda þessa færslu:
ÁFRAM ÍSLAND!


24.5.18

Pokémon afmæli #2

Í síðustu færslu sagði ég ykkur frá 6 ára fjölskylduafmæli guttans. Síðasta árið í leikskólanum ákváðum við líka að hafa leikskólaafmæli og það komu 10 fjörugir strákar í heimsókn.

Gestirnir fengu boðskort sem að þessu sinni var keypt í gegnum Etsy.
Guttinn fékk það verkefni að gera svona sæt merkispjöld á gestagjafirnar


Pokémon myndirnar eru héðan. Gjöfin var upprúllað blað (með pokémon völunarhúsi) og pez nammi. Okkur finnst gaman að gefa litlu gestunum gjöf  í kveðjuskyni en einnig finnst okkur mikilvægt að hafa bara lítilræði.
Við fengum alveg dásamlegt veður og allir gormarnir gátu setið saman í sófanum úti á palli.
Þeir fengu allir svona pikachu kórónur sem að hækkaði krúttstigið margfalt!
Hérna finnið þið sniðið að kórónunni. Ég valdi að sjálfsögðu að gera kórónurnar úr pappír en ekki frauðplasti eins og lagt er til.


Við vorum tilbúin með ýmislegt að gera, klifra í trjánum, "hástökk" og ýmiskonar dót úti í garði og svo leikföng inni. Einng reyndu allir sig við að festa skottið á Pikachu sem að var skemmtilegur leikur.

14.5.18

Pokémon afmæli


Nú þegar sól fer hækkandi á lofti og það styttist í að guttinn verði 7 ára er við hæfi að sýna ykkur myndir úr 6 ára afmælinu síðasta sumar.

Guttinn óskaði eftir Pokémon afmæli enda afar áhugasamur um pokémonspjöld og að spila með þeim.

Þegar hann vaknaði á afmælisdaginn var ég búin að gera smá uppstillingu með pökkunum


Í fjölskyldu afmælinu var boðið upp á hakk&pasta að ósk afmælisbarnsins. Í boði var bæði kjötsósa og grænmetissósa, lífrænt pasta og heimatilbúna pestóið setti punktinn fyrir i-ið. Börn og fullorðnir borðuðu á sig gat eins og vera ber!


Við borðið var smá skraut sem glittir í efst á þessari mynd; útprentuð pokémon mynd sem að gormarnir gleymdu sér við að skoða, enda allir afar áhugasamir um pokémon þetta sumarið. Einnig má sjá perlaðan Pikachu eftir afmælisbarnið, ljósaskilti og tölustafinn 6 (fékkst í Sösterne).
Sex ára töffarar "dab-a" auðvitað þegar reynt er að taka mynd af þeim!


Borðskrautið var afar einfalt, fengum lánaðan Pikachu og settum hann á stall. Svo fann ég Pokémon mynd í þokkalegum gæðum, prentaði út í A4 stærð, plastaði og notaði sem diskamottur. 
Ég var nú ekkert of ánægð með útkomuna en gormarnir í afmælinu gleymdu sér alveg við að skoða hina ólíkustu Pokémona og voru hæstánægðir að fá að eiga "diskamottuna".


Afmæliskakan var auðvitað á sínum stað, frönsk súkkulaðikaka að ósk guttans.
Ég nota nær alltaf sömu aðferðina við að skreyta afmæliskökuna, prenta út eitthvað tengt þemanu og líma á grillpinna, það er svo dásamlega einfalt og kemur ávallt vel út.


Á þessari mynd sést líka hvernig ég skreytti borðið í stíl við pokémon kúlu.
Hvítt borð, rauður dúkur á helminginn af borðinu, svart límband á samskeytin og prenta út pokémon kúlu. Sérlega einfalt og þægilegt!

Það kemur svo önnur færsla um leikskólaafmælið og nokkrar einfaldar hugmyndir sem ég notaði þar.

18.3.18

Páskaeggjaleit


Ég hef áður sagt ykkur frá páskaeggjaleitinni úti sem er núna orðin hefð í fjölskyldunni.
Þá fá fullorðnir og börn páskaegg, við felum það úti og allir skemmta sér konunglega við leitina.
Yfirleitt höfum við fengið vorveður eins og það gerist best, sólríkt en kalt. Þá höfum við gjarnan sest niður saman úti og notið þess að fá smá sól á okkur. Við höfum þó ekki látið páskahret slá okkur út af laginu en það urðu kannski ekki mjög erfiðir felustaðir fyrir valinu það árið!


Það eru ekki hefðbundin íslensk páskaegg í þessari leit heldur finnst okkur fullorðna fólkinu gaman að fá eitthvað alveg sniðið að okkur og auðvitað að smakka það sem hinir fengu! Við eigum nokkur pappaegg til þess að nota við þetta tilefni sem er notuð ár eftir ár.


Stundum passar gjöfin illa í pappaegg og þá er bara að láta hugmyndaflugið ráða.
Ég hef nokkrum sinnum notað pappírspoka enda skemmtilegt að skreyta og endurnýta þannig poka sem manni hafa áskotnast.


Eitt árið skreytti ég eggjabakka og fyllti af góðgæti


Börnin hafa hingað til fengið tvö pappaegg, annað með  gotteríi t.d. jarðarber, bláber, hlaup, súkkulaði eða ávaxtaskvísu. Í hinu egginu er lítil gjöf t.d. trekkibíll, fótboltaspil, pokémonkort eða lego. Við höfum svo pakkað eggjunum inn í mismunandi servíettur (t.d. eitt barn með blómaservíettu, næsta með jólaservíettu) þannig að litlir gormar eigi auðvelt með að finna sín egg þó þau kunni ekki að lesa og séu æst í leitinni.


Í fyrra var páskaeggjaleitin í fyrsta sinn hjá okkur, enda komin með góðan garð núna. Guttinn var mjög spenntur fyrir þessu og til þess að stytta biðina og leyfa honum að taka þátt í undirbúningunum gerði guttinn svona líka fínt páskaskilti:


Hann tók einmitt þessa frábæru mynd af skiltinu sínu sjálfur, ósvikin mynd með puttanum inn á!

Ljúfar samverustundir, ferskt loft, sól og súkkulaði fyrir sálina = mæli með.

10.3.18

Pínulitlar páskahugmyndir


Þar sem það styttist í páskana langaði mig að deila með ykkur nokkrum hugmyndum.
Venjulega hef ég keypt hefðbundnar páskagreinar (þessar með gulu blómunum) en síðasta ár ákvað ég að klippa nokkrar greinar af fallega alpareyninum úti í garði.
Mér fannst það ekki koma síður vel út auk þess sem það var ókeypis og umhverfisvænna!


Við höfum oft sent páskagotterí til vina og vandamanna í Þýskalandi.
Í fyrra fannst mér eins og enginn þyrfti á meira súkkulaði að halda en ákvað í samvinnu við guttann að senda svona ferlega sæt perlupáskaungakort.


Við fengum svo í páskagjöf svona æðisleg sumarblóm- frábær hugmynd sem að nýtist vel og þarf ekki að kosta mikið.

20.1.18

Húsið málað



Fyrir einu og hálfu ári fluttum við úr yndislegu íbúðinni okkar og fallegt og mátulega stórt hús.
Litirnir á húsinu voru þó ekki alveg að okkar smekk og mig langaði til að sýna ykkur "fyrir&eftir" myndir.


Húsið var í raun þrílitt, gult og rautt til skiptis eftir hliðum og svo liggur klæðningin líka ólíkt og það var dregið fram með litunum. Gluggar, hurðir og þakkantur var svo hvítt.


Við völdum dökkbláan lit sem nýtur sín vel með hvítum gluggum og þakkanti.

Reyndar náðum við ekki að mála allt húsið áður en síðasti vetur skall á og því var húsið FJÓRLITT í marga mánuði......sem að leit mjög einkennilega út! Mikið sem ég var glöð þegar við náðum að klára að mála það allt núna í sumar.


Sonurinn túlkaði fjórlita húsið okkar svona á málverki


Nokkrar myndir í viðbót til þess að sýna ykkur breytinguna:



Við erum afar ánægð með hvað nýi liturinn kemur vel út.
Núna er þetta orðið húsið okkar, enda líður okkur mjög vel hér.



Svo að öllu sé haldið til haga er gott að taka fram að "fyrir" myndirnar koma frá fasteignasölunni.

Liturinn sem við völdum á húsið heitir Miðnætti U-753 og er frá Flugger og ég borgaði fullt verð fyrir málninguna.