16.10.16

Klósettrúllukastalinn


Í dag minnti Facebook mig á að fyrir ári síðan varð þessi klósettrúllukastali til.
Guttinn var lasinn og þetta samvinnuverkefni okkar tók nokkra daga.
Fínasta tilbreyting þegar litlir gormar eru lasnir heima, stutta stund í einu.

Ég er með alls konar krakkaföndurshugmyndir á Pinterest og í þetta sinnið valdi guttinn að gera svona kastala.


Þá kom sér vel að guttinn safnar klósettrúllum af mikilli samviskusemi.
Hinir kassarnir fundust inni eldhússkáp.
Við hjálpuðumst að við klippa klósettrúllurnar en uppröðunin er eftir hans höfði.


Þetta verkefni tók nokkra daga og ég hjálpaði honum svolítið við þetta föndur,
enda úthaldið ekki alltaf mikið þegar maður er lasinn.
Við notuðum alls konar liti af málningu, gimsteina og glimmermálningu.
Guttinn var alveg með á hreinu hvernig kastaladyr eru og klippti þær út sjálfur en fannst þó fráleitt að hafa þær í miðjunni...!


Mamman fékk leyfi til að setja þessar litlu leynidyr á kastalann fyrir kisuna.


Eins og á öllum alvöru kastölum er skrautlegum fánum flaggað.


Það varð meira að segja til lítil saga um kastalann:
Prinsinn og hann átti vonda kisu og líka vonda drottning.
Hún átti heima niðri og hann átti heima efst uppi.
Stundum var hún svo vond að hún þurfti að fara eitthvað annað.
Þegar hún var hætt að vera vond flutti hún aftur heim.

Kastalinn þolir ekki mikið hnjask og við höfum nokkrum sinnum þurft að líma turna aftur á.
Guttinn er enn afar stoltur af þessum litríka og glimmer skreytta kastala ári seinna. 
Það varð meira að segja að flytja hann með viðhöfn þegar við fluttum í vor,
enda konungleg hýbýli.


Hér má sjá hvernig við gerðum lest úr klósettrúllum.