29.3.16

Star Wars afmæli


Enn og aftur er Star Wars vinsælt og því líklegt til þess að vera á óskalistanum hjá mörgum fyrir afmælisþema. Þessar myndir eru úr fertugsafmæli þar sem afmælisbarninu var komið á óvart með veislu. Og jú, það er fullt af fertugum afmælisbörnum sem elska að fá Star Wars afmæli!


Auðvitað urðu að vera geislasverð. Þó að ég viti ekki mikið um Star Wars veit ég að geislasverðin verða að vera! Þetta eru einlitar servíettur og "free printables" eða fríkeypis til útprentunar héðan sem eru einfaldlega límd utan um upprúllaða servíettuna.


Ég var reyndar að flýta mér svo mikið þegar ég gerði þetta að sverðin voru óþarflega stutt hjá mér, sem kom berlega í ljós þegar farið var að nota sverðin.....


þetta var þó auðvelt að laga með því að rúlla servíettunum öðruvísi upp!

Allir lögðu til veitingar á hlaðborð og við höfðum í huga uppáhalds nammi afmælisbarnsins í gegnum árin.....


 Þessi fínu "skilti" til útprentunar keypti ég á Etsy á þrjá dollara og gat sett þann texta sem ég vildi


Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sleip í Stjörnustríðsísku og þurfti því að fletta upp á veraldarvefnum til að fá innblástur að sumum nöfnunum....


...þannig að sumt hljómar kannski ekki gáfulega fyrir þá sem eru vel að sér í þessum fræðum.


Aðrar hugmyndir gat ég bara fengið lánaðar, enda ljómandi fínar!


Ég nota gjarnan efni sem fríkeypis til útprentunar (e. free printables) og þetta er frábært dæmi um slíkt; yoda soda og vaderade. Einfaldlega prenta út og líma utan um gosdósir, tær snilld!



Það var auðvitað myndband með krúttlegum og pínlegum myndum af afmælisbarninu eins og venjan er og þar komu frasarnir úr  Star Wars bíómyndunum sér vel.

Afmælisbarnið er sjálft duglegt í frasa smíðinni og við rifjuðum þá helstu upp og hengdum upp á vegg:



Ég fann þetta ókeypis letur á vefnum (e. free fonts) og setti svo bara upp í Word ritvinnsluforritinu.
Letrið sem minnir á Star Wars má finna hér og Star Trek hér.


Það er hægt að leika sé með svona letur á margan hátt, t.d. í myndbandi eða myndasýningu fyrir afmælisbarnið, í boðskortum.....

Þá er ég búin að sýna ykkur þær hugmyndir sem ég notaði í þetta sinn, það er auðvelt að finna hafsjó hugmynda á netinu og aðlaga að afmælisbarni og aðstæðum, ég pinnaði t.d. nokkrar hér.

Megi mátturinn vera með ykkur!


7.3.16

Ferming 2016 - hugmyndir að veisluskreytingum


Mér bauðst aftur að föndra smá í samvinnu við A4 en í þetta skiptið var þemað ferming.

Hérna sést gestabókin en forsíðan er teiknuð fríhendis með Posca pennum og ég kaus að handskrifa á hana. Ef að ég ætti fermingarbarn hefði ég sennilega reynt að sannfæra það um að gera forsíðuna, enda væri það skemmtileg og persónuleg minning seinna meir.
Í bókinni eru margar blaðsíður þannig að hægt væri að líma inn myndir tengdar fermingunni.
Einnig væri afar skemmtilegt ef að gestirnir skrifuðu eða teiknuðu persónulega kveðju til fermingarbarnsins.


Svona sá ég gestabókina og hugsanlegt pakkaborð fyrir mér.
Hillurnar er í samræmi við geometrískt þemað og gaman að leika sér með
liti, hæð og dýpt þegar maður notar þær á borð.
Ég málaði hillurnar í samræmi við litaþemað með akrýlmálningu.


Ég notaði Posca pennana einnig til að teikna á steininn og hafði sama mynstur og á gestabókinni.
Ég get frætt ykkur á því að það er mun erfiðara að teikna svona á rúnnaðan og óreglulegan stein en á slétt blað!


Þetta er svo hugmynd fyrir veisluborðið,
en það voru mjög fábrotnar veitingar í þessari sýndar- fermingarveislu, haha!

Mér fannst mynstrið á servíettunum svo flott og fannst sniðugt að búa til þverslaufur úr þeim.
Slaufuservíetturnar þjóna bæði hlutverki skrauts og munnþurrku.
Ég notaði mynsturlímband til að líma þverslaufurnar.


Hérna sést betur hvernig þverslaufan er fest við hnífapörin,
sem getur verið handhægt þegar boðið er upp á hlaðborð.
Ég reyni að forðast einnota plast borðbúnað og varð því að prófa þessi einnota hnífapör úr birki. 
Mér er óhætt að mæla með þeim maður kemst ekki hjá því að nota einnota.


Fábrotnar veitingarnar runnu ljúflega ofan í ljósmyndarann og litla aðstoðarmanninn eins og sjá má.
Þar með lýkur þessari litlu þykjustu fermingarveislu og eins og í öllum góðum veislum fara allir heim búnir að fylla á líkamlega og sálræna tankinn.


Eftirtaldar vörur fékk ég að gjöf frá A4: Panduro Hexagon Boxes,
house doctor servíettur og gulan Posca penna.