9.2.16

Persónulegt dagatal


Ég hef undanfarin ár gert dagatöl í jólagjafir og gefið ömmum&öfum og fleiri ættingjum myndir af guttanum. Skemmst er frá því að segja að þetta slær í gegn á hverju ári.
 
Auðvitað hefur guttinn líka fengið dagatal. Fyrst fannst honum svo gaman að skoða myndirnar aftur og aftur og spjalla um þær. Núna er dagatalið notað til að merkja inn atburði og afmæli og ræða um daga og mánuði. 
 
Það tekur dágóðan tíma að fara í gegnum myndir ársins, velja þær bestu og fínpússa svo að dagatalið gleðji líka augað en mikið er það skemmtilegt. Gott verkefni þegar árið líður á enda að renna yfir árið og allt það skemmtilega sem maður gerði með fólkinu sínu og fyllast þakklæti. Og rifja upp allt það sem maður kom í verk (sem er ágætis tilbreyting frá listanum langa í höfðinu um allt það sem maður kom ekki í verk!).
 
Það hafa allir jafn gaman af dagatalinu góða.
 
 
Venjulega hef ég gert sömu útgáfuna fyrir alla þar sem það er ódýrara þegar maður kaupir dagatalið hjá prentþjónustu. Og tekur minni tíma.
 
Í ár ákvað ég að vera sérstaklega dugleg og gera margar mismunandi útgáfur allt góða fólkið mitt, sem skýrir afhverju þessi færsla kemur inn í febrúar (og ekki eru öll tilbúin enn!).
Þetta er mikil vinna en mjög skemmtileg.
 
 
Hérna sjáið þið glefsur úr dagatalinu sem ég gerði fyrir aldraða frænku mína.
Hún hafði mikið gaman af því að sjá þessar gömlu myndir og tengdi betur við þær heldur en nýju myndirnar í dagatalinu.
Við gátum líka spjallað aðeins um þær, það er hjálplegt þegar það er orðið erfitt að finna umræðuefni. Ég hafði ekki minna gaman af því að skoða þessar gömu myndir og vinna með þær.
 
Myndin hérna fyrir ofan finnst mér svo falleg, öll svo ung og falleg í sól og sumaryl í Köben.
Ég veit ekki hver tók þessa mynd því hann afi minn, Sveinbjörn Þórhallsson, er á henni en aðrar myndir tók hann. Eins og þessar flottu myndir úr Heklugosi árið 1947.
 

 
 Glöggir lesendur hafa sennilega tekið eftir að dagatalið er á ensku, en ég fann bara fríkeypis dagatal þar sem maður gat bætt við mynd á veraldarvefnum. Sparaði mér smá vinnu þar.
 
 
Best að drífa sig í að ljúka við síðustu dagatölin - það er ekkert sem segir að dagatal megi ekki vera frá mars 2016 til febrúar 2017, er það nokkuð!?!
 
 

No comments:

Post a Comment