19.10.15

Ævintýraferð

 
Ég var svo heppin að fá að fara í ævintýraferð með þessum guttum um helgina. 
 
Ég gæti líka byrjað frásögnina svona: Ef þið sáuð vel dúðaða konu með bakpoka á ferð um Vesturbæinn með tvo drengi að drepa ósýnilega úlfa og syngja hástöfum um miðjan dag í rigningarsudda...... þá var það ég.
 
 
Ég týndi í bakpoka alls konar dót sem mér datt í hug að gæti nýst í ævintýraferð:
  • Eldhúsrúllu til að geyma upprúllað fjársjóðskort
  • Klósettrúllur fyrir kíki
  • Stækkunargler til að skoða dýrgripi
  • Pöddubox með stækkunargleri
  • Garnspotti til að binda þjófa eða bjarga einhverjum
  • Krítar til að skrifa skilaboð
  • Fáni til að merkja landnám
  • Vasaljós fyrir hellaskoðun eða skyndilega sólmyrkva
  • Fjaðrir til að kitla óvin
 
Það er hægt að taka ýmislegt annað með eins og sverð og áttavita. 
Við notuðum ekki allt sem tekið var með.
 
Áður en haldið var af stað þurfti að gera fjársjóðskort:
 
 
Kortið var samvinnuverkefni: Yngri guttinn var með á hreinu að fjársjóðurinn er merktur með rauðu x-i. Eldri guttinn sá til þess að blöðin pössuðu saman og bjó til hættur á leiðinni, það voru úlfaskógur, eldfjall og blóðpollar (sem sjást því miður ekki á þessari mynd).
 
 
Ég fann í bunka hjá mér þessi blöð sem voru með gamaldagsskrift framan á og rifin á köntunum 
(það er líka mjög gaman að gera pappír gamlan með því að leggja hann í bleyti í tevatni).
Guttarnir lifðu sig svo mikið inn í þetta að þeir voru skúffaðir að ég væri ekki með blek svo þeir gætu skrifað með fjöðrunum og urðu að gera sér tússliti að góðu.
 
Við kortagerðina fékk ég góða hugmynd um hvað guttarnir sáu fyrir sér í ævintýraferð, það var mun meira að skrímslum og hættum en í mínu ævintýri en sem betur fer komu þeir mér inn á rétta braut, það er jú lítið varið í ævintýri þar sem eru engar hættur.
 
 
Guttarnir gerðu líka hvor sinn kíkinn og skreyttu, þeir voru mikið notaðir til að skima eftir drekum og öðru óþýði.
Fyrir þá sem þurfa snögga upprifjun:
Heftið tvær klósettrúllur saman.
Gatið á hliðunum og festið spotta af hæfilegri lengd.
Skreytið að vild.
 
 
Við vorum rétt lögð af stað þegar sást til úlfanna. Guttarnir voru með ráð við því, krítuðu úlfagildrur, merktu staðinn og drógu fram ímynduð geislasverð.
 

 Úfastþrin.
Ég skal aðstoða ykkur við dulmálið, þetta merkir úlfastaðurinn.
 
Eftir að hafa barist við úlfana og farið í gegnum leynigöng í eldskóm til þess að forðast gjósandi eldfjallið var kominn tími á nesti.
 
 
Endurnærð lögðum við til atlögu við drekana. Það kom í ljós að annar guttinn kunni drekamál og við komumst því framhjá þeim án þess að grípa til vopna.
 
 
Við hákarla er hins vegar ekki hægt að ræða á drekamáli og því eina ráðið að flýja. Við töldum þó vissara að vara fyrst aðra grunlausa vegfarendur við þessum stórhættulegu hákörlum.
 
 
 Á flótta frá hákörlunum klöngruðumst við yfir þetta stórgrýti.
 
 
Í fjörunni fundum við svo dularfull fótspor...
 
 
en þau leiddu okkur að fjársjóðnum!
 
 
Heill hellingur af gimsteinum, þökk sé fjársjóðskortinu, hugmyndafluginu og ráðagóðum og hugrökkum guttum.
 
Hér endar ævintýri, þó ekki úti í mýri með ketti sem setti á sig stýri.
 
 
 
Við skemmtum okkur konunglega, ekki síst ég, það er allt of langt síðan ég hef flúið undan hákörlum og gengið á eldskóm. En við gerðum meira en að skemmta okkur:
 • Við fengum ferskt loft í lungun og ágætis hreyfingu.
 • Við æfðum fínhreyfingar í korta- og kíkisgerðinni
 • Grófhreyfingar úti (grjótklifur, stigi, hopp)
 • Umferðarreglur þegar við fórum yfir götuna
 • Skrift og lestur þegar við merktum hættulega staði
 • Talnaskilingur þegar við töldum gimsteinana
 • Náttúruvísindi þegar við töluðum um flóð og fjöru og hvernig glerbrot slípast til
 • Málörvun þegar við töluðum saman
 • Virkjuðum allan tímann ímyndunaraflið, útsjónarsemina og samskiptahæfileikana
....svona til þess að nefna það helsta.
 
Í lokin má benda á að þessi ævintýraferð kostaði varla krónu, þurfti lítinn sem engan undirbúning og ekkert sérstakt veður.
 
 

14.10.15

Haustföndur - kertakrukka með laufblöðum 
Mér finnst haustlitirnir alveg einstaklega fallegir.
Ég og guttinn týndum fullt af fallegum laufblöðum og þurrkuðum til þess að nota í smá föndur.
 
 
  Fyrst gerðum við kertakrukku. Ég njóta sjóðandi heitt vatn til að ná miðanum af og svo naglalakkhreinsir (aceton) til að ná límrestunum.
 
 
Svo er að bera á lag af límlakki með pensli
 
 
 Svo setur maður þurrkuð laufin á og aftur límlakk yfir.
Efst á þessari mynd sjáið þið glitta í stórt laufblað á krukkunni. Það var ekki góð hugmynd, það er svo stórt og þykkt að það kemur engin birta í gegnum það. Muna það næst!
 
 
Útkoman er svona fín kertakrukka. Guttinn hjálpaði mér við þessa en þetta föndur er í erfiðasta lagi fyrir 4 ára gutta því að laufblöðin eru viðkvæm.
 
 
Hérna er krukkan að kvöldi með batteríis sprittkerti. Svona kerti eru nýjasta uppáhaldið hjá guttanum og hann notar þetta sem næturljós, enda notaleg og hættulítil birta til að sofna við.
 
 
Guttinn vildi svo endilega endurtaka leikinn frá því í fyrra og plasta laufblöð og setja út í glugga. Greinilega sammála mömmu sinni að þetta sé sígilt!