28.9.15

Frá sumri yfir í haust

 
 
 Stundum finnst mér gaman að leyfa árstíðunum að endurspeglast í skrautinu hérna innanhúss og í dag langaði mig að sýna ykkur hvernig hvernig ég endurraðaði á hillunum í eldhúsinu.
 
 
Svona var borðkrókurinn í sumar
 
 
Klukkan góða er hugmynd eiginmannsins
 
 
Og á hillunum er allskonar, mest svona héðan og þaðan
Bollarnir eru ekkert endilega í stíl við skrautið í hillunum, það var meðvituð ákvörðun að leyfa þeim bara að njóta sín því að þeir eiga allir sína sögu.
(Ég væri búin að kaupa 7 bolla í ansi mörgum litum ef ég hefði ekki ákveðið það!)
 
 
Til dæmis þessi sérstaklega fallega plöntubók, afasystir mín á hana: Hún fékk hana að gjöf þegar hún var í námi úti í Noregi og skrifaði afar snyrtilega með blýanti við myndirnar íslensk heiti blómanna.

 
Og handafar guttans með gamalt kökuform úr Góða hirðinum í bakgrunni
 
Núna langaði mig að breyta svolítið til og svarta tröllahvönnin sem ég sýndi ykkur um daginn var útgangspunkturinn
 
 
Þá langaði mig til að skipta um texta í rammanum. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að taka texta Mugison Stingum af. Ég fann fríkeypis leturgerðir á alnetinu og svo notaði ég nú bara Word.
Það þarf ekki að vera flókið.
 
 
"Syngjum lag, spilum spil,
þá er gott að vera til"
 
 
"lækjarnið, lítinn foss,
skeinusár, mömmukoss"
 
Óþarfaþráin náði tökum á mér um daginn og ég splæsti í þessi box. Mér fannst tilvalið að "lækjarniður, skeinusár og mömmukoss" væru innihaldið.
 
 
Borðkrókurinn er því svona þessa dagana. Koparpotturinn og kopareggjabikararnir koma frá föðurömmu minni og afa. Þeim fannst gaman að kaupa kopar á "loppemörkuðum" þegar þau bjuggu í Svíþjóð fyrir mörgum árum.
 
 
Gaman að stilla svona fallegum hlutum með sögu upp.
 
 
 
Ég læt þetta duga af borðkróknum og gömlum gersemum í bili.
 
 
 

21.9.15

Náttúrulegar skreytingar - hvönn

 
Stundum togast á í mér nægjusami umhverfisverndarsinninn og kaupglaði fagurkerinn sem að bráðvantar hinn mesta óþarfa.
 
Til að friða skreyti-breyti-þörfina ákvað ég því að finna eitthvað í náttúrunni sem að kostar ekki krónu og hefur ekki neikvæð áhrif á umhverfið að ég skreyti-breyti með.
 
 
 
  Hérna fann ég eina hvönn sem var ennþá græn og skellti í glæran vasa með steinum (steinum sem að sonur minn elskulegur hefur safnað og dröslað með sér heim og ég hef kunnað honum litlar þakkir fyrir, þangað til núna!)
 
 
Ég hélt fyrst að þetta væri tröllahvönn en fékk ábendingu um að þetta væri sennilega ætihvönn.  Ætihvönnin er ekki skaðræði eins og tröllahvönnin og því engin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af fræjum.
 
 
Hérna smellti ég hvönninni í glerflösku og læt hana bjóða gesti velkomna í forstofunni.
(mæli með að taka stilkinn langan, ég klikkaði á því)
 
 
Mér finnst hvönnin afar falleg. Guttinn sagði: "sjáðu mamma, þetta er eins og biðukolla".
 
 
Skugginn er ekki síður fallegur
 
 
Þessi fær svo að njóta sín á hillunum í eldhúsinu
 
 
kemur skemmtilega út svona svört við hvítan bakgrunninn.