25.2.15

FuglamaturÉg rakst á svo skemmtilegar umhverfisvænar hugmyndir um daginn um útfærslur á fuglamat. Ég ákvað að prófa eina útgáfu með guttanum.
 
 
Við fundum til allt sem þurfti og mældum magnið gróflega. Svo var þurrefnunum hrært saman og sett í form. Í öllu þessu gat guttinn tekið virkan þátt.
Ég bræddi svo kókosolíu og setti yfir þurrefnin.
 
Við studdumst við "uppskrift" úr haustblaði íbn sem má finna hér.
 
 
Við fundum snæri sem brotnar niður í náttúrinni (e. biodegradable). Það gerir því ekkert til þó að við komum ekki aftur á staðinn til þess að hirða bandið upp, það brotnar niður í náttúrunni (ólíkt plasti).
 

Við létum "kökurnar" harðna yfir nótt úti á svölum .
 

 
Þetta urðu svona líka fínar og þægilegar fuglamatskökur.
 
 
Við fórum svo í göngutúr og dreifðum góðgætinu í ýmis tré í nágrenninu. Það var sérlega gaman næstu daga á eftir að kíkja hvort að fuglarnir höfðu nartað í.
 
Umhverfisvæn og ódýr hugmynd en umfram allt uppskrift að skemmtilegri samveru með börnum á öllum aldri.
 
Góðar stundir!
 
p.s.
Það er ekki úr vegi að benda á uppáhalds síðurnar mínar tengdri samveru:
 

19.2.15

Bókamerki úr flottum umbúðum 
Kortér í jól föndraði ég bókamerki fyrir systkinabörn sem eru mér afar kær.
 
Hugmyndin var að gefa þeim "kósíkvöld í kassa"  þ.e. jólabíómyndir og nasl en mér fannst vanta eitthvað persónulegt með.
Þar sem ég stóð í búðinni og velti vöngum yfir hvaða nasl ég ætti að kaupa rakst ég á íslenska handgerða lúxus súkkulaðið frá Omnom. Smá smakk og sérlega fallegar umbúðir seldu mér súkkulaðið á nóinu!
 
Þegar heim var komið dúllaði ég svo við bókamerki úr súkkulaðiumbúðunum:
 
 
 
Svona voru bókamerkin að aftan.
("Bók í hönd" er ljóð eftir Þórarinn Eldjárn)
 
 
 
Einhvern veginn svona var svo lokaútkoman á "kósíkvöldi í kassa".
 
 

8.2.15

Könglar og kertaljós á stigaganginum

 
Notalegheit á stigaganginum..
Könglar og kertaljós.
Gamaldags og gróft.
 
 
 
Þessi uppstilling (sem hefur áður birst hér á síðunni) gæti líka orðið einhverjum innblástur ef þið viljið gera notalegt við innganginn hjá ykkur.
 Gamlir hlutir með sál og sögu í aðalhlutverki.
 

3.2.15

Þrennt á þriðjudegi # 11 Notaleg samvera

Nokkrar ljúfar hversdagsmyndir í þetta sinn:

 
Baka saman
Litlum höndum finnst fátt skemmtilegra; hjálpa til við að mæla, hnoða, fletja út og auðvitað borða!

 
Það er auðvitað bara ein leið til að taka upp púsluspil sem dettur á gólfið
......með gröfunni!
 
 
Við erum að æfa hljóðin með Mána og Maju þessa dagana og þessi diskamotta er vinsæl.
Frábært hvað það er til af góðu efni fyrir börn og foreldra. Ég get heilshugar mælt með Leikum og lærum og einnig Lubba.