4.12.15

Níu persónulegar jólagjafahugmyndir

Nú þegar jólin nálgast óðfluga datt mér í hug að taka saman nokkrar hugmyndir
hér af síðunni að allskonar jólagjöfum sem eiga það sameiginlegt að vera persónulegar
 og oftast líka umhverfisvænar.
 

1. Gjafakort á samveru:

 
 
 
Eitt árið fengu frændsystkinin gjafabréf á að koma og gista, velja hvað var í matinn og gera það sem þeim finnst eftirsóknarverðast þegar þau koma í heimsókn. Þessi gormur var 4 ára þegar hann fékk þetta í gjöf, toppurinn var að fá að borða margar margar brauðsneiðar með jarðarberjasultu og auðvitað út að leika!
 
 
Frænka á unglingsaldri fékk líka að gera það sem henni finnst skemmtilegast;
 
 
að dunda í alls konar föndri

 
og við bjuggu til andlitsmaska og smelltum á okkur!
 
 
Nú eða gjafabréf á ævintýraferð.
 

2. Gjafakarfa

 
 
Eitt árið fengu starfsmennirnir á leikskóla guttans svona gjafakörfu með allskonar gotteríi,
 
 
Kósíkvöld í kassa var með jólabíómyndum og nammi
 
 
Hérna var hugmyndin "sólskin í körfu". Mæli sérstaklega með leikföngunum sem glittir í þarna.
 

3. Föndur

 
Við byrjuðum á þessu á fyrstu jólum litla guttans og höfum gert þær á hverju ári síðan. Guttanum finnst afar merkilegt að höndin á honum hafi einu sinni verið svona lítil.
 
 
 
Að skrifa eða teikna á bolla. Auðvelt að gera persónulega gjöf og líka auðvelt fyrir litlar hendur.
 
 
Að gefa einhverjum faðmlag, tja, það er sennilega fátt sem toppar það!
Allt um faðmlög sem hægt er að senda í pósti hér.

 
Góða skemmtun við að útbúa jólagjafir!

14.11.15

Jólaskraut

 
Innblástur fyrir jólaskrautið er umfjöllunarefnið núna og líkt og með jólakortin er þetta jólaskrautið frá því í fyrra!
Sem betur fer er gyllt, svart&hvítt alveg jafn vinsælt og í fyrra.
 
Kannski hefði ég ekkert átt að játa að þetta væri síðan í fyrra heldur þykjast vera gasalega skipulögð og byrjuð að skreyta, bara til þess að gefa ykkur innblástur?
Þá hefði ég samt enga afsökun fyrir að það gleymdist að taka myndir þar sem kveikt er á kertunum, þær myndir tekur maður víst ekki ári seinna.......
 
 
 Mér fannst skemmtileg tilbreyting að setja Georg Jensen aðventukertastjakann á bakka með smá greni og jólakúlum.
 

 Birkiskálina fallegu frá pabba hef ég sýnt ykkur áður, hérna fékk hún hátíðlegan blæ.


Þessa grein fann ég úti og smellti í vasa. Ég fyllti vasann með steinum til þess að hann héldi jafnvægi. Steinarnir eru líka skemmtilega grófir á móti þessu fínlega og sparilega skrauti.
 

Skrautið er úr ýmsum áttum, nýtt og gamalt. Þessi fallega frostrós er gerð úr skeljum og fæst hér.

 
 Svona var skrautið úti í glugga og ekki spillti snjórinn í bakgrunni fyrir.

8.11.15

Jólakortahugmyndir

 
 
Nóvember og það er kominn tími til að huga að jólakortunum.
 
Ég er að sjálfsögðu ekki búin að gera jólakortin fyrir þetta árið en þar sem ég gaf mér engan tíma til að sýna ykkur jólakortin í fyrra get ég sýnt ykkur þau núna!
 
 
Þau eru einföld og frekar fljótleg, enda sérhæfi ég mig í slíkri kortagerð
 
 
Fyrst er að finna góða mynd, hvort sem það er af barninu þínu, fjölskyldunni, gæludýrinu eða falleg mynd úr fríinu.
Ég skar út einlitar "mottur" í nokkrum litum sem voru aðeins stærri en myndin til að ramma hana inn.
Braut svo A4 blað til helminga. Það er svolítið stórt en ég átti gommu af stórum umslögum sem kortin pössuðu fínt í.
Svo er að finna falleg skrautlímbönd, þar kom ríflegt límbandasafnið að góðum notum.
 
 
Mér fannst skemmtilegt að hafa þau svolítið ólík og prófa mismunandi samsetningar.
 
 
Jólin þar áður gerði ég svona kort:
 

  og dúllaði svolítið við umslögin

 
Og jólin þar áður var þetta niðurstaðan:
 


Sjá fleiri útfærslur hér
 
 
Kortin eiga margt sameiginlegt en mér finnst standa upp úr hvað fyrirsætan er mikið krútt,
en þar er ég mögulega nokkuð hlutdræg!
 

19.10.15

Ævintýraferð

 
Ég var svo heppin að fá að fara í ævintýraferð með þessum guttum um helgina. 
 
Ég gæti líka byrjað frásögnina svona: Ef þið sáuð vel dúðaða konu með bakpoka á ferð um Vesturbæinn með tvo drengi að drepa ósýnilega úlfa og syngja hástöfum um miðjan dag í rigningarsudda...... þá var það ég.
 
 
Ég týndi í bakpoka alls konar dót sem mér datt í hug að gæti nýst í ævintýraferð:
    • Eldhúsrúllu til að geyma upprúllað fjársjóðskort
    • Klósettrúllur fyrir kíki
    • Stækkunargler til að skoða dýrgripi
    • Pöddubox með stækkunargleri
    • Garnspotti til að binda þjófa eða bjarga einhverjum
    • Krítar til að skrifa skilaboð
    • Fáni til að merkja landnám
    • Vasaljós fyrir hellaskoðun eða skyndilega sólmyrkva
    • Fjaðrir til að kitla óvin
 
Það er hægt að taka ýmislegt annað með eins og sverð og áttavita. 
Við notuðum ekki allt sem tekið var með.
 
Áður en haldið var af stað þurfti að gera fjársjóðskort:
 
 
Kortið var samvinnuverkefni: Yngri guttinn var með á hreinu að fjársjóðurinn er merktur með rauðu x-i. Eldri guttinn sá til þess að blöðin pössuðu saman og bjó til hættur á leiðinni, það voru úlfaskógur, eldfjall og blóðpollar (sem sjást því miður ekki á þessari mynd).
 
 
Ég fann í bunka hjá mér þessi blöð sem voru með gamaldagsskrift framan á og rifin á köntunum 
(það er líka mjög gaman að gera pappír gamlan með því að leggja hann í bleyti í tevatni).
Guttarnir lifðu sig svo mikið inn í þetta að þeir voru skúffaðir að ég væri ekki með blek svo þeir gætu skrifað með fjöðrunum og urðu að gera sér tússliti að góðu.
 
Við kortagerðina fékk ég góða hugmynd um hvað guttarnir sáu fyrir sér í ævintýraferð, það var mun meira að skrímslum og hættum en í mínu ævintýri en sem betur fer komu þeir mér inn á rétta braut, það er jú lítið varið í ævintýri þar sem eru engar hættur.
 
 
Guttarnir gerðu líka hvor sinn kíkinn og skreyttu, þeir voru mikið notaðir til að skima eftir drekum og öðru óþýði.
Fyrir þá sem þurfa snögga upprifjun:
Heftið tvær klósettrúllur saman.
Gatið á hliðunum og festið spotta af hæfilegri lengd.
Skreytið að vild.
 
 
Við vorum rétt lögð af stað þegar sást til úlfanna. Guttarnir voru með ráð við því, krítuðu úlfagildrur, merktu staðinn og drógu fram ímynduð geislasverð.
 

 Úfastþrin.
Ég skal aðstoða ykkur við dulmálið, þetta merkir úlfastaðurinn.
 
Eftir að hafa barist við úlfana og farið í gegnum leynigöng í eldskóm til þess að forðast gjósandi eldfjallið var kominn tími á nesti.
 
 
Endurnærð lögðum við til atlögu við drekana. Það kom í ljós að annar guttinn kunni drekamál og við komumst því framhjá þeim án þess að grípa til vopna.
 
 
Við hákarla er hins vegar ekki hægt að ræða á drekamáli og því eina ráðið að flýja. Við töldum þó vissara að vara fyrst aðra grunlausa vegfarendur við þessum stórhættulegu hákörlum.
 
 
 Á flótta frá hákörlunum klöngruðumst við yfir þetta stórgrýti.
 
 
Í fjörunni fundum við svo dularfull fótspor...
 
 
en þau leiddu okkur að fjársjóðnum!
 
 
Heill hellingur af gimsteinum, þökk sé fjársjóðskortinu, hugmyndafluginu og ráðagóðum og hugrökkum guttum.
 
Hér endar ævintýri, þó ekki úti í mýri með ketti sem setti á sig stýri.
 
 
 
Við skemmtum okkur konunglega, ekki síst ég, það er allt of langt síðan ég hef flúið undan hákörlum og gengið á eldskóm. En við gerðum meira en að skemmta okkur:
  • Við fengum ferskt loft í lungun og ágætis hreyfingu.
  • Við æfðum fínhreyfingar í korta- og kíkisgerðinni
  • Grófhreyfingar úti (grjótklifur, stigi, hopp)
  • Umferðarreglur þegar við fórum yfir götuna
  • Skrift og lestur þegar við merktum hættulega staði
  • Talnaskilingur þegar við töldum gimsteinana
  • Náttúruvísindi þegar við töluðum um flóð og fjöru og hvernig glerbrot slípast til
  • Málörvun þegar við töluðum saman
  • Virkjuðum allan tímann ímyndunaraflið, útsjónarsemina og samskiptahæfileikana
....svona til þess að nefna það helsta.
 
Í lokin má benda á að þessi ævintýraferð kostaði varla krónu, þurfti lítinn sem engan undirbúning og ekkert sérstakt veður.
 
 

14.10.15

Haustföndur - kertakrukka með laufblöðum



 
Mér finnst haustlitirnir alveg einstaklega fallegir.
Ég og guttinn týndum fullt af fallegum laufblöðum og þurrkuðum til þess að nota í smá föndur.
 
 
  Fyrst gerðum við kertakrukku. Ég njóta sjóðandi heitt vatn til að ná miðanum af og svo naglalakkhreinsir (aceton) til að ná límrestunum.
 
 
Svo er að bera á lag af límlakki með pensli
 
 
 Svo setur maður þurrkuð laufin á og aftur límlakk yfir.
Efst á þessari mynd sjáið þið glitta í stórt laufblað á krukkunni. Það var ekki góð hugmynd, það er svo stórt og þykkt að það kemur engin birta í gegnum það. Muna það næst!
 
 
Útkoman er svona fín kertakrukka. Guttinn hjálpaði mér við þessa en þetta föndur er í erfiðasta lagi fyrir 4 ára gutta því að laufblöðin eru viðkvæm.
 
 
Hérna er krukkan að kvöldi með batteríis sprittkerti. Svona kerti eru nýjasta uppáhaldið hjá guttanum og hann notar þetta sem næturljós, enda notaleg og hættulítil birta til að sofna við.
 
 
Guttinn vildi svo endilega endurtaka leikinn frá því í fyrra og plasta laufblöð og setja út í glugga. Greinilega sammála mömmu sinni að þetta sé sígilt!

28.9.15

Frá sumri yfir í haust

 
 
 Stundum finnst mér gaman að leyfa árstíðunum að endurspeglast í skrautinu hérna innanhúss og í dag langaði mig að sýna ykkur hvernig hvernig ég endurraðaði á hillunum í eldhúsinu.
 
 
Svona var borðkrókurinn í sumar
 
 
Klukkan góða er hugmynd eiginmannsins
 
 
Og á hillunum er allskonar, mest svona héðan og þaðan
Bollarnir eru ekkert endilega í stíl við skrautið í hillunum, það var meðvituð ákvörðun að leyfa þeim bara að njóta sín því að þeir eiga allir sína sögu.
(Ég væri búin að kaupa 7 bolla í ansi mörgum litum ef ég hefði ekki ákveðið það!)
 
 
Til dæmis þessi sérstaklega fallega plöntubók, afasystir mín á hana: Hún fékk hana að gjöf þegar hún var í námi úti í Noregi og skrifaði afar snyrtilega með blýanti við myndirnar íslensk heiti blómanna.

 
Og handafar guttans með gamalt kökuform úr Góða hirðinum í bakgrunni
 
Núna langaði mig að breyta svolítið til og svarta tröllahvönnin sem ég sýndi ykkur um daginn var útgangspunkturinn
 
 
Þá langaði mig til að skipta um texta í rammanum. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að taka texta Mugison Stingum af. Ég fann fríkeypis leturgerðir á alnetinu og svo notaði ég nú bara Word.
Það þarf ekki að vera flókið.
 
 
"Syngjum lag, spilum spil,
þá er gott að vera til"
 
 
"lækjarnið, lítinn foss,
skeinusár, mömmukoss"
 
Óþarfaþráin náði tökum á mér um daginn og ég splæsti í þessi box. Mér fannst tilvalið að "lækjarniður, skeinusár og mömmukoss" væru innihaldið.
 
 
Borðkrókurinn er því svona þessa dagana. Koparpotturinn og kopareggjabikararnir koma frá föðurömmu minni og afa. Þeim fannst gaman að kaupa kopar á "loppemörkuðum" þegar þau bjuggu í Svíþjóð fyrir mörgum árum.
 
 
Gaman að stilla svona fallegum hlutum með sögu upp.
 
 
 
Ég læt þetta duga af borðkróknum og gömlum gersemum í bili.