31.12.14

Þrettán á þriðjudegi # 10 jólin 2014

 
Þegar maður gefur sér ekki tíma til að blogga á aðventunni safnast ýmislegt upp, þess vegna er lúxusfærsla í dag með þrettán myndum.
 
 
Frábært þegar hlutirnir koma í svo fallegum kössum að það þarf bara að setja borða utan um. Og hitt fer bara í sætan poka. Sannkölluð hraðinnpökkun!

 
Klippti ofurlitla grein og límdi á merkimiða.
 
 
Guttinn er glysgjarnari en mamman. Hann fékk að velja pappírinn, klippti hann með aðstoð og límdi límböndin. Vildi svo fá að skreyta með jólalímmiðum og velja merkimiða.
 
 
Fjölskyldan hittist til að skreyta piparkökur.

 
Hjá litlum gormum voru kökurnar svona fínar

 
og hjá þeim eldri svona.

 
Og við skreyttum piparkökuhús, gormunum til mikillar gleði.
 
 
Það var jólalegt og fallegt veðrið í desember
 

Jólamaturinn.
Sem betur fer er maðurinn minn atvinnukokkur, því að ég vildi hamborgarahrygg, hann vildi svínalundir (sem mér sýnist vanta á myndina) og M&P vildu hnetusteik.....og svo auðvitað tvennskonar sósur og kartöflur, heimalagað rauðkál, þrjár tegundir af salati .....
 
 
og við borðuðum á okkur gat!
 
 
Þetta var ein af vinsælli jólagjöfunum, enda skemmtilegt og einfalt spil fyrir unga sem aldna

 
 
 
Þetta nasl er sjúklega gott, Philadelpia rjómaostur, sweet chilli sósa yfir. Borið fram með nachos. Hugmynd fyrir gamlárs?

9.12.14

Þrennt á þriðjudegi #9 Á aðventu

 
Eins og lesendur mínir vita fékk maðurinn inn bjórdagatal frá mér í ár sem vakti mikla lukku. Hann opnar það gjarnan á kvöldin og laumar svo einhverjum sætum mola í pokann og réttir mér (talandi um að endurnýta!). Hann kom mér samt á óvart einn daginn og kom heim með fagra rós. Því birtist hérna fyrsta myndin af rós á bloggsíðu sem að heitir Rósir og rjómi.
 
 
Í yndislegu vetrarveðri er fátt betra en að ylja sér með heitum drykk. Ég gæti alveg drukkið heitt kakó á hverjum degi en af skynsemisástæðum mæli ég með þessi tei, jólalegur kryddkeimur en ekki of sterkur. Það skemmir ekki fyrir að teið er lífrænt og sanngirnisvottað.
 
 
Við mæðgurnar hittumst um daginn og skelltum í sörur. Við ákváðum að prófa það sem "allir" eru að tala um, Þetta er svo sannarlega fljótlegra en þar sem við vorum þrjár fór mestur tími í að bíða eftir að hvert lag kólnaði. Niðurstaðan úr þessari tilraun er því að þetta sé sniðugt þegar maður er einn að baka en af margir eru að baka saman er skemmtilegra og fallegra að gera sörurnar á hefðbundinn máta. Sörurnar bragðast þó ávallt vel, sama hvor aðferðin er valin.

2.12.14

Bjórdagatal

 
 
Ég og maðurinn minn höfum stundum gert jóladagatöl fyrir hvort annað og í ár ákvað ég að vera ótrúlega góð eiginkona og splæsa í bjórdagatal.
 
Ég arkaði í Vínbúðina og keypti hvorki meira né minna en 18 mismunandi tegundir af jólabjór og svo uppáhaldsbjórtegundir mannsins míns. Konan sem var á kassanum á undan mér var greinilega líka í sömu erindagjörðum og ég, enda sennilega fáir sem annars kaupa 24 staka bjóra! 

 
Ég notaði bréfpoka úr Vínbúðinni til þess að pakka þeim inn
 
 
Tölustafina má finna fríkeypis til að prenta út hérna.
 
 
Stundum skreytti ég smá með tússpenna
 

Ég fléttaði meira að segja eitt bandið...
 
 
Bjórdagatalið 2014