Við guttinn söfnuðum laufblöðum og reyniberjum á leiðinni heim úr leikskólanum um daginn.
Guttanum fannst þetta agalega spennandi.Við vorum á opnu svæði milli leik- og grunnskólans og mörgum barnanna sem áttu leið hjá fannst þetta heldur skrýtin iðja hjá okkur. Ein dama úr leikskólanum vildi t.d. ekki setjast inn í bílinn með mömmu sinni því hún var svo upptekinn af því að horfa á okkur. Að lokum gat hún ekki orða bundist og benti mér á að það mætti ekki borða "fuglaberin". Ég sagði henni að ég ætlaði bara að búa til hálsmen úr þeim en ekki borða þau og þá hristi hún bara höfuðið yfir þessari rugluðu konu.
Við guttinn létum þessi viðbrögð lítið á okkur fá og hófumst handa við að þræða berin upp á band þegar heim var komið.
Ég útskýrði fyrir 3 ára guttanum að hann þurfti að fara varlega svo hann stingi sig ekki á nálinni, á þessari mynd sést hvað hann var einbeittur og vandvirkur (tja, næstum bara rangeygður!).
Fjörkálfinum fannst þetta svo skemmtilegt að hann þurfti nær enga aðstoð og sat heillengi við að þræða og þræða meira.
Mamman hafði meira að segja tíma til þess að dúlla sjálf aðeins við eina lengju
Guttinn var ekki lítið stoltur af berjalengjunni sinni. Hann vildi reyndar ekki gera hálsmen þannig að núna hangir fína berjalengjan sem skraut í stofunni.
No comments:
Post a Comment