26.10.14

Haustföndur #2 laufblöð í glugga

 
Önnur lauflétt og sígild hugmynd að haustföndri, mér finnst þetta alltaf koma jafn vel út.
 
 
Þurrkuðum og pressuðum laufblöðum raðað á bókaplast
 
 
Annað bókaplast lagt ofan á og pressað vel.
Litli guttinn vildi snyrta plastið í kring enda finnst honum mikið sport að klippa þessa dagana.
 
 
Hengja út í glugga. Við festum með kennaratyggjói en það má vel hugsa sér að nota venjulegt glært límband eða fallegt mynsturlímband.
 
 
Sjáiði bara hvað maður sér æðarnar í laufblöðunum vel. Sérlega fallegt!
 
 
Haustlitadýrð inni í stofu í nokkrar vikur í viðbót...
 

19.10.14

Forstofan haust 2014

 
Ég breytti örlítið í forstofunni um daginn. Það gleður augað að breyta örlítið til.
 
Svona var bakkinn á kommóðunni búinn að vera í nokkurn tíma:
 
 
Pappírinn í botninum er sá sama og ég notaði í "bakið" á trékassanum á stigaganginum og má finna hérna. Krukkan kemur úr kjallaranum frá afasystur minni. Barnamatskrukkan með blúndunni er ofurlítið DIY verkefni sem þið getið lesið um hér.
 
Nýr pappír í botninn og smá haust með fallegu Erikunni:
 
 
Margir eru hrifnir af allskonar dýrum og það er mikið í tísku. Enn sem komið er hafa fá dýr fengið að flytja inn á heimilið okkar en þessir fuglar eru samt voðalega fallegir í forstofunni.
 
 
Ég splæsti líka í ný spakmæli í rammana en myndirnar af litla guttanum eru bara of sætar til þess að skipta þeim út!
 
 
Spakmælin góðu og mörg önnur í viðbót má finna á Pinterest.
 

16.10.14

Stigagangur

 
Það er orðið langt síðan ég sýndi ykkur frá stigaganginum.
Svona er þetta búið að vera í nokkra mánuði, ekki tengt neinni sérstakri árstíð.
Ég nota ennþá ávaxtakassann góða, ég fékk þennan gráa lit með því að leggja stálull í matarediksbleyti og mála því svo á beran viðinn. Sjá nánar hér.
 
 
Ég þakti "bakið" með útprentuðum gamaldags skjölum. Það kemur vel út þegar maður rífur kantana af blaðinu.
 
Þarna eru nokkrir hlutir með sögu og sál eins og stígvélin góðu sem eru að verða fertug og mjólkurbrúsinn. Guttinn þreytist ekki á að segja mér að þegar amma var lítil stelpa þá náði hún í mjólk í þennan brúsa:-)
 
 
Ég fékk svo þennan æðislega málaða stein í afmælisgjöf frá góðri vinkonu í fyrra og mér finnst hann sóma sér einkar vel þarna. Það sakar líka ekki að minna sig á þessi vísdómsorð þegar maður gengur framhjá.

13.10.14

Skreyttir bollar

 
Ég varð fyrir því óláni að brjóta alveg sérlega mikilvægan einkakaffibolla samstarfskonu minnar um daginn. Þar sem ég vinn á skemmtilegum stað þar sem andrúmsloftið er létt varð ég auðvitað að bæta henni upp bollann góða, vel og rækilega!
 
 
Ég nældi mér í sérstaka tússliti sem eru ætlaðir til þess að skreyta keramik með (þeir fást í föndurbúðum). Ég var með breiða tússliti þannig að þetta varð heldur gróft hjá mér.
Tússlitirnir eru afar einfaldir í notkun, maður "tússar" bara á, lætur þorna aðeins og bakar svo í bakaraofninum samkvæmt leiðbeiningum.
 
Ég varð auðvitað að pakka herlegheitunum fallega inn
 

og merkja í bak og fyrir

 
 
Mér finnst þetta góð hugmynd fyrir persónulega gjöf, falleg orð um vinkonu, uppáhalds spakmæli, börnin teikna myndir fyrir ömmu&afa....
 
eða bara svona smart&sætt eins og hjá Helenu hjá Craft&Creativity
 

1.10.14

Haustföndur með reyniberjum
Við guttinn söfnuðum laufblöðum og reyniberjum á leiðinni heim úr leikskólanum um daginn.

 
Guttanum fannst þetta agalega spennandi.Við vorum á opnu svæði milli leik- og grunnskólans og mörgum barnanna sem áttu leið hjá fannst þetta heldur skrýtin iðja hjá okkur. Ein dama úr leikskólanum vildi t.d. ekki setjast inn í bílinn með mömmu sinni því hún var svo upptekinn af því að horfa á okkur. Að lokum gat hún ekki orða bundist og benti mér á að það mætti ekki borða "fuglaberin". Ég sagði henni að ég ætlaði bara að búa til hálsmen úr þeim en ekki borða þau og þá hristi hún bara höfuðið yfir þessari rugluðu konu.

 
Við guttinn létum þessi viðbrögð lítið á okkur fá og hófumst handa við að þræða berin upp á band þegar heim var komið.
 
 
 
Ég útskýrði fyrir 3 ára guttanum að hann þurfti að fara varlega svo hann stingi sig ekki á nálinni, á þessari mynd sést hvað hann var einbeittur og vandvirkur (tja, næstum bara rangeygður!).
 
  
Fjörkálfinum fannst þetta svo skemmtilegt að hann þurfti nær enga aðstoð og sat heillengi við að þræða og þræða meira.
 

 


Mamman hafði meira að segja tíma til þess að dúlla sjálf aðeins við eina lengju

 
Guttinn var ekki lítið stoltur af berjalengjunni sinni. Hann vildi reyndar ekki gera hálsmen þannig að núna hangir fína berjalengjan sem skraut í stofunni.