Ég var lengi búin að velta fyrir mér hvernig lampa ég ætti að kaupa fyrir guttann og fór þá að hugsa um minn eigin vegglampa þegar ég var barn. Mér datt í hug að spyrja mömmu hvort að hann væri enn til. Hann er ekki til lengur en það voru enn til lamparnir sem að bræður mínir áttu. Mér fannst það hljóma afar spennandi, enda áttu þeir fallega kúlulaga lampa en minn var ljósbleikur og kantaður úr IKEA með kassalaga plastgrind fyrir perunni.
Ég gerði mér ferð í foreldrahús til þess að líta á gripinn og hann var flottari en mig minnti.
Sérstaklega fannst mér flott að það er segull í veggfestingunni þannig að maður getur snúið skerminum á alla kanta til þess að stilla ljósið.
Þegar ég fór að spjalla við mömmu um lampann kom í ljós að hún hafði átt hann sem barn, svo var hann notaður fyrir einn af bræðrum mínum og núna fær guttinn minn hann.
Eins og sjá má á myndunum var lampinn farinn að láta nokkuð á sjá og ég ætlaði bara að spreyja hann. Þegar ég skoðaði hann nánar datt mér i hug að það væri kannski hægt að pússa hann upp. Pabbi ráðagóði kom með rétta efnið og ég pússaði og pússaði þangað til hann varð alveg glansandi fínn.
Það er reyndar ekkert rautt í herbergi guttans en ég tímdi ekki að spreyja yfir lampann þegar að lakkið var ennþá svona fínt þrátt fyrir að vera á sextugsaldrinum.
Mér finnst varla sjást á honum miðað við aldur og fyrri störf!
Við settum reyndar nýja snúru í, svona öryggisins vegna. Við erum líka búin að útskýra fyrir guttanum að lampinn hitni, hingað til hefur það gengið vel.
Núna kúra þessi gamli fallegi lampi og þessi krúttlegi litli gutti saman. Ég efast ekki um að þeir eigi eftir að eiga margar ljúfar stundir saman við að skoða bækur upp í rúmi fyrir svefninn eins og fyrri eigendur áttu.
No comments:
Post a Comment