30.9.14

Þrennt á þriðjudegi #6 Haustlægðir og haustlauf

 
1.
Þrátt fyrir hressandi rokið, láréttu rigninguna og haglélið sem dynja á okkur þessa dagana hefur verið hægt að sjá stórkostlega regnboga upp á hvern einasta umhleypingahaustlægðardag!
 
 
og stundum tvo í einu
 
 
slík náttúru undur heilla jafnt unga sem aldna.
 
 
2.
 Eftir hressandi haustrokið er fallegustu haustlaufin að finna í pollunum en ekki á trjánum sjálfum. Það er reyndar merkilega mikið af laufum eftir á trjánum núna. Í byrjun október fyrir 5 árum var mjög hressilegur hauststormur sem að skyldi hvert einasta tré á suðvesturhorninu eftir bert. Ég man það af því að ég var að gifta mig og við ætluðum að taka fallegar haustmyndir úti. Myndirnar voru teknar úti og urðu afar fallegar, en þar er ekki eitt einasta haustlauf að sjá....
 
 
3.
Það er því enn tími til þess að tína falleg laufblöð, pressa og þurrka fyrir haustföndur.
Meira um það síðar.
 
 

25.9.14

Herbergi litla guttans #3 Rauður lampi


Ég var lengi búin að velta  fyrir mér hvernig lampa ég ætti að kaupa fyrir guttann og fór þá að hugsa um minn eigin vegglampa þegar ég var barn. Mér datt í hug að spyrja mömmu hvort að hann væri enn til. Hann er ekki til lengur en það voru enn til lamparnir sem að bræður mínir áttu. Mér fannst það hljóma afar spennandi, enda áttu þeir fallega kúlulaga lampa en minn var ljósbleikur og kantaður úr IKEA með kassalaga plastgrind fyrir perunni.
 
 
Ég gerði mér ferð í foreldrahús til þess að líta á gripinn og hann var flottari en mig minnti.
 
 
Sérstaklega fannst mér flott að það er segull í veggfestingunni þannig að maður getur snúið  skerminum á alla kanta til þess að stilla ljósið.
 
 
Þegar ég fór að spjalla við mömmu um lampann kom í ljós að hún hafði átt hann sem barn, svo var hann notaður fyrir einn af bræðrum mínum og núna fær guttinn minn hann.
Eins og sjá má á myndunum var lampinn farinn að láta nokkuð á sjá og ég ætlaði bara að spreyja hann. Þegar ég skoðaði hann nánar datt mér i hug að það væri kannski hægt að pússa hann upp. Pabbi ráðagóði kom með rétta efnið og ég pússaði og pússaði þangað til hann varð alveg glansandi fínn.
 
 
Það er reyndar ekkert rautt í herbergi guttans en ég tímdi ekki að spreyja yfir lampann þegar að lakkið var ennþá svona fínt þrátt fyrir að vera á sextugsaldrinum.
 
 
Mér finnst varla sjást á honum miðað við aldur og fyrri störf!
Við settum reyndar nýja snúru í, svona öryggisins vegna. Við erum líka búin að útskýra fyrir guttanum að lampinn hitni, hingað til hefur það gengið vel.
 
 
Núna kúra þessi gamli fallegi lampi og þessi krúttlegi litli gutti saman. Ég efast ekki um að þeir eigi eftir að eiga margar ljúfar stundir saman við að skoða bækur upp í rúmi fyrir svefninn eins og fyrri eigendur áttu.
 
 
 
 
 
 
 

23.9.14

Þrennt á þriðjudegi # 5


Ég er svo rík að hafa eignast nýjan yndislega fallegan frænda um daginn og ég föndraði ofurlítið fyrir nafnaveisluna hans.
Hann fékk sjóð til kerrukaupa í sparibauk sem að áður hafði verið auglýsing frá banka.

 
Með fylgdi kort fullt af heillaóskum fyrir litla prinsinn
 
 
Og auðvitað fékk stóri bróðirinn smá glaðning í tilefni dagsins
 
 
 
Það var ekki fleira þennan þriðjudaginn :-)
 

16.9.14

Þrennt á þriðjudegi #4

 

 
Hraðskreyttur gjafakassi


 
Eiginmaðurinn átti afmæli í síðustu viku. Guttanum fannst ómissandi að gera afmæliskórónu og ná í afmælislestina. Hann valdi líka sjálfur myndina á kortið frá sér og límdi hana á.
 Svona verða meira að segja afmæli foreldranna að skemmtilegum viðburðum með börnunum.
 
 
Smá þakkargjöf fyrir pössun.
Lífrænt ræktað og súkkulaðið líka sanngirnisvottað svo að allir græða.
 Síðast en ekki síst, afar ljúffengt (ég keypti aðra flösku af rabarbaradrykknum bara fyrir mig!)
 

8.9.14

Herbergi litla guttans #2 Þríhyrningar


Það er kominn tími til þess að sýna ykkur meira af uppfærðu herbergi litla mannsins. Þessi veggur olli mér nokkrum heilabrotum, alls konar pælingar fram og til baka. En niðurstaðan varð að halda rimlarúminu, það er 70x140 sem er óvenju stórt þannig að það fer vel um guttann. Svo er þetta líka gamla rúmið mitt þannig að mér þykir sérlega skemmtilegt að nota það áfram.

 
Eins og þið sjáið fékk ég innblástur frá því sem afar vinsælt í dag; þríhyrninga límmiðar. Þegar ég var að leita að þeim í sumar voru þeir hvergi fáanlegir þannig að maðurinn minn kom með snilldarhugmynd:
 
 
Þessi matta sjálflímandi rúlla: tæpar 800 krónur
 

 
Þessi snjalli eiginmaður sem að var ekki í miklum vandræðum með að reikna út gráður og halla: ómetanlegur.
 
Það þurfti þó að splæsa í gráðuboga, enda hef ég ekki haft þörf fyrir slíka græju síðan í grunnskóla.
 
 
Allt strikað út af þýskri nákvæmni og slump glaða íslenska mamman náði að skera þetta nokkuð beint út með aðstoð pappírsskera (þjóðerni pappírsskerans sem þarna var í lykil hlutverki er ekki þekkt).
 
 
Slump glöðu mömmunni tókst að líma þetta nokkuð reglulega á vegginn með aðstoð hallamáls og þá var bara að finna til dót á hillurnar:
 
 
Þrjú listaverk eftir guttann, ramminn sem að ég gerði fyrir hann, litir í fallegum krukkum og ein lest, guttinn er alveg gallharður á því að lestin eigi að vera nákvæmlega þarna, hvað sem uppstillingaróðu móður hans finnst!
 
Svo glittir líka í þetta kolkrabbakrútt
 
 
 
 
 
 
Ég skreytti svo stólana með vegglímmiðum. Guttinn kallar þetta alltaf "íhíhí"- stólana þegar hann dröslar þeim um íbúðina í ýmsum erindagjörðum og finnst mamma sín mjög kjánaleg þegar hún spyr: "Ertu að meina fílastólana?" Enda augljóslega um sama hlut að ræða.
 
Næst er það meira um "hæðarmælingar tréð" sem sést í horninu bakvið hurðina
 
 
Þangað til má finna gamlar færslur um herbergi litla guttans hér, hér, hér og hér.

3.9.14

Þrennt á þriðjudegi #3Þetta er hættulega gott nammi og í hollari kantinum. Ekki skemmir fyrir að það er auðvelt að nálgast hráefnin í lífrænu deildinni (uppskriftina er einmitt að finna aftan á hrísflögunum frá Sollu).
 
Súkkulaðihrískökur
5 dl hrísflögur
1 dl agave/ hlynsíróp
1/2 dl hnetusmjör
1/2 dl kókosolía
1/2 dl kakóduft
 
Setjið allt nema hrísflögurnar í matvinnsluvél og blandið. Hrærið hrísflögunum saman við með skeið. Setjið í lítil pappaform og látið storkna í frysti í minnst 15 mín. Geymist best í kæli eða frysti.
 
 
Aftur matur, meira að segja hollur. Ég mætti vera duglegri í hollu deildinni en hérna er mitt innlegg í hollar nasl hugmyndir: Mysuostur og eplabiti.
Sæt-súr mysuostur og stökkt epli- ég skora á ykkur að prufa!
 

Þessi hugmynd er ekki matartengd en afar sniðug, ég lærði þetta af einni í vinnunni. Við þekkjum öll hvað gerist þegar myndir hanga of lengi uppi á vegg með kennaratyggjói en ef þið setjið smá límband undir kennaratyggjóið er málið leyst!
Gerir ekkert til þó að myndirnar hangi upp í nokkra mánuði, ekkert fitufar á myndinni og ekkert mál að ná kennaratyggjóinu af.