17.8.14

Herbergi litla guttans #1 Krítartafla og klukka

 
Ég sagði ykkur um daginn að við værum að uppfæra herbergi litla guttans, enda eru 3 ára guttar engin smábörn lengur! Við smelltum smá krítartöflu á þetta veggpláss milli fataskáparins og hillusamstæðunnar. Foreldrarnir og guttinn eru afar ánægð með útkomuna.
 
 
Maðurinn minn gerði ekki lítið grín að mér fyrir að vilja gera sexhyrnda krítartöflu en með smá þolinmæði er hægt að ná henni næstum-því-hornréttri. Þrjár umferðir af krítarmálingu og ta da...

 
...kominn þessi líka fína krítartafla á vegginn! Hérna er litli guttinn að skrifa stafinn sinn í mörgum útgáfum.

 
Svo strokar hann bara út með tusku. Ég átti þessi bláu plastbox og pabbinn var svona sniðugur að hengja þau bara á hillusamstæðuna fyrir krítarnar og tuskuna. Einfalt og aðgengilegt.
 
 
Klukkan góða var tekinn fram úr geymslunni og hengd upp fyrir ofan krítartöfluna. Guttinn hefur brennandi áhuga á klukkunni og tölustöfum og kvartaði mikið undan því að það væru ekki tölustafir á klukkunni í eldhúsinu. Núna hefur hann sína eigin klukku og fylgist merkilega vel með tímanum: Guttinn kom upp í rúm til foreldra sinna tæplega hálf níu einn ljúfan sumardag. " Mamma, þegar ég vakna þá var litli vísirinn á átta og stóri vísirinn var fyrst á einn, svo tvo, svo þrír, svo fjórir, svo fimm og núna ég í mömmu-og pabbarúmi að kúra!"
 
 

1 comment:

  1. thank you for the information provided, we are waiting for the next info

    ReplyDelete