26.8.14

Þrennt á þriðjudegi #2

 

 Þessi nýi liður á blogginu hlaut ágætar viðtökur í síðustu viku.
 Þessa vikuna er það:
1. einfaldur poki sem er búið að prenta á og smella smá mynsturlímbandi á,

 
2. fallegt kort sem er hægt að fá fríkeypis á netinu og prenta út,
 

3. úrval af spakmælum prentað út sem innblástur fyrir góðan dag.
 
Ég vona að þið eigið ljúfan þriðjudag

19.8.14

Þrennt á þriðjudegi # 1

Af því að ég hef sjálf svo gaman af svona færslum með litlum hugmyndum eða atvikum úr hversdagslífinu hjá öðrum bloggurum ætla ég að gera tilraun með "Þrennt á þriðjudegi" hérna á Rósum og rjóma.
 
 
Lítið gjafabréf til vina sem takast á við krefjandi verkefni
 
 
Afmæliskort af þeirri tegund sem ég sérhæfi mig í; einfalt og fljótlegt!
 
 
Góðir vinir að koma í heimsókn og hvað er sumarlegra (og einfaldara!) í forrétt en tómatur og mozzarella með basilíku?
 
 
 

17.8.14

Herbergi litla guttans #1 Krítartafla og klukka

 
Ég sagði ykkur um daginn að við værum að uppfæra herbergi litla guttans, enda eru 3 ára guttar engin smábörn lengur! Við smelltum smá krítartöflu á þetta veggpláss milli fataskáparins og hillusamstæðunnar. Foreldrarnir og guttinn eru afar ánægð með útkomuna.
 
 
Maðurinn minn gerði ekki lítið grín að mér fyrir að vilja gera sexhyrnda krítartöflu en með smá þolinmæði er hægt að ná henni næstum-því-hornréttri. Þrjár umferðir af krítarmálingu og ta da...

 
...kominn þessi líka fína krítartafla á vegginn! Hérna er litli guttinn að skrifa stafinn sinn í mörgum útgáfum.

 
Svo strokar hann bara út með tusku. Ég átti þessi bláu plastbox og pabbinn var svona sniðugur að hengja þau bara á hillusamstæðuna fyrir krítarnar og tuskuna. Einfalt og aðgengilegt.
 
 
Klukkan góða var tekinn fram úr geymslunni og hengd upp fyrir ofan krítartöfluna. Guttinn hefur brennandi áhuga á klukkunni og tölustöfum og kvartaði mikið undan því að það væru ekki tölustafir á klukkunni í eldhúsinu. Núna hefur hann sína eigin klukku og fylgist merkilega vel með tímanum: Guttinn kom upp í rúm til foreldra sinna tæplega hálf níu einn ljúfan sumardag. " Mamma, þegar ég vakna þá var litli vísirinn á átta og stóri vísirinn var fyrst á einn, svo tvo, svo þrír, svo fjórir, svo fimm og núna ég í mömmu-og pabbarúmi að kúra!"
 
 

6.8.14

3 ára afmæli guttans #3 Sérstakur dagur

 
Ég rakst á svo sniðuga bloggfærslu um daginn.
Færslan var skrifuð af móður sem vildi deila skemmtilegum hugmyndum til þess að gera afmælisdaga sérstaka. Til dæmis hún skrifaði á bílinn sinn og bað aðra ökumenn að flauta fyrir afmælisbarninu, hún lét blöðrum rigna yfir börnin og setti kökuskraut á morgunmatinn. Endilega kíkið á hana hér.
 
Flestir foreldrar vilja að börnin upplifi afmælisdaginn sinn sem sérstakan dag og það þarf ekki að vera mikið eða dýrt til að gleðja litlu hjörtun.
 
Við vorum til dæmis ekki með neinn sérstakan afmælispakka frá okkur foreldrunum handa guttanum í ár. Hann tók ekkert eftir því í öllu pakkaflóðinu. Ég þurfti að stoppa mig nokkrum sinnum af til að kaupa ekki hitt og þetta sem ég vissi að hann hefði gaman af. Ég veit að hann á alveg nóg, en þið vitið, manni langar til þess að kaupa hálfan heiminn handa þessum krúttum.
 
Við reyndum að gera afmælidaginn fyrir litla guttann okkar sérstakan og mér datt í hug að deila því með ykkur. Þetta eru litlar og ljúfar hugmyndir og vafalaust kannist þið við þær flestar.
 
Guttinn fór með ávaxtabakka í leikskólann. Ég var búin að finna nokkrar skemmtilegar útfærslur á Pinterest og leyfði honum að velja úr. Hann valdi það einfaldasta af öllu; regnbogaávexti (hjúkk!)
 
 
Kaupa ávexti í mismunandi litum, skera niður og raða á bakka. Voilá!
Þremur vikum seinna biður hann enn um að fá að skoða myndir af regnboga ávöxtunum.
 
 
Ég hengdi veifurnar upp í íbúðinni kvöldið fyrir stóra daginn og því voru þær það fyrsta sem hann sá þegar hann fór á fætur um morguninn. Hann hrópaði upp yfir sig af gleði!
 
 
 
Hann fór í bakaríið og fékk alveg að velja hvað hann vildi með morgunkaffinu. Hann valdi saltkringlur og Berlínarbollur, já, það fer ekki á milli mála að guttinn er hálf þýskur!
 
 
 
Svo kveiktum við á þremur afmæliskertum og sungum afmælissönginn á þýsku. Gleðin fólst ekki síst í því að taka fram afmælislestina, telja réttan fjölda af vögnum og kertum og finna rétta tölustafinn. Svo verður maður alltaf pínu feiminn þegar afmælissöngurinn er sunginn, þó það séu bara mamma og pabbi við morgunverðarborðið.
 
 
Síðast en ekki síst, af öllu fallegu gjöfunum sem guttinn fékk var þessi sú sem hann varð að prófa fyrir svefninn: límmiðar með Mikka mús.
 
 
 Það minnir okkur á að litlu hlutirnir eru oft engu síðri en þeir stóru og dýru.