31.7.14

3 ára afmæli guttans #2 Rautt og blátt lestarþema

 
Já, lestarþema var það fyrir litla lestarguttann minn.
 
Útgangspunkturinn var þessi fína mynd sem ég notaði á kökuskrautið.
 
 
Út frá henni voru þema litirnir ákveðnir; blátt og rautt sem að nutu sín í skrautinu á hillunni.
Einnig notaði ég rauðar servíettur og blá pappírsrör og síðast en ekki síst voru möffinsformin blá og rauð.
 
 
Það var auðvitað lest á afmælisborðinu og svo var líka afmælislest hjá pakkaborðinu
 
 
 
Ég fann meira að segja þessar lestar servíettur ofan í skúffu, litli guttinn var ekki lítið ánægður með þær!
 
 
Svo smellti ég lestarteinum á gólfið hér og þar í íbúðinni með mynsturlímbandi.
 
 
Lestarteinarnir vöktu mikla lukku hjá afmælisbarninu og gestunum en þó ekkert í samanburði við þetta fjarstýrða tryllitæki!!!
 

3 ára afmæli guttans #1


Í byrjun júlí varð guttinn okkar 3 ára. Það eru engar ýkjur að segja að hann sé augasteinn foreldra sinna, enda með eindæmum mikið krútt og klár strákur (nei, nei ég er ekkert hlutdræg!).
 
Við vorum búin að skipuleggja úti afmæli en það varð ekkert úr því sökum rigningar (og aðeins meiri rigningar!) Kvöldið áður var því drifið í að koma íbúðinni í þokkalegt stand og skreytióða mamman reyndi að hafa pínulítið skraut og dúllerí.
 
Herbergi guttans var hálfklárað og hálftómt en ég reddaði mér með því að líma upp nokkur listaverk eftir afmælisbarnið.
 
 
Afmælisbarnið valdi fötin sín alveg sjálft, enda hefur 3 ára guttinn sterkar skoðanir á því eins og flestu öðru :-)
 
 
Matseðillinn var skipulagður með úti afmæli í huga en nautakjöts- og laxahamborgararnir runnu engu að síður ljúflega niður hjá gestunum.
Hann hékk líka þurr akkúrat að meðan grillað var (sem er lán í rigningaróláni!)

 
Svona leit veisluborðið út.
Ég nýtti ýmsa hluti frá litla manninum sem skraut á hillurnar og endurnýtti veifurnar frá því í fyrra.
Þemað í veislunni voru járnbrautarlestir enda hefur litli guttinn AFAR mikinn áhuga á þeim!
 
Það var svo úrval af möffins í eftirrétt:
Frönsk súkkulaðimöffins
Möffins fyllt með vanillubúðingi
Bláberjamuffins
 
 
 
Ég gat notað þessa sætu lestarmynd sem ég keypti á Etsy fyrir 2 ára afmælið og bjó til svona krúttað skraut á kökurnar.
 
 
" Nú ertu þriggja ára...."

 
Meira um afmælið á morgun en þangað til má glugga í eldri færslur um afmæli guttans
og
 
 
 
 
 
 
 

9.7.14

Innblástur fyrir barnaherbergi

 
Litli guttinn okkar er alveg að verða þriggja ára.
Hann hætti fyrir nokkrum mánuðum með bleyju og núna er skiptiborðið komið til lítils frænda sem fer alveg að fæðast.
Guttanum finnst reyndar mun merkilegra að vera hættur með snuð.
 
Engar bleyjur, ekkert snuð og þá fannst foreldrunum kominn tími á að flikka svolítið upp á herbergið. Á sínum tíma var rúmið og skiptiborðið bara fært hingað yfir í vinnuherbergið og því var ennþá HELLINGUR af dóti þar frá foreldrunum.
En þar sem leikföng sonarins voru farin að yfirtaka nær alla íbúðina ákváðum við að það væri skynsamlegt að gera aðeins meira pláss fyrir leikföngin í herberginu hans,
svo það væri allavegana hægt að ganga frá þeim þar á milli þess sem þeim er dreift um íbúðina!
 
Herbergið er ekki tilbúið en mér datt í hug að deilda með ykkur nokkrum myndum sem hafa veitt mér innblástur:

 
Frekar krúttað og skemmtilegt sem hugmynd fyrir ofan rúmið
 
 
Límmiða þríhyrningar finnst mér skemmtilegir og einfaldir, ekkert mál að taka í burtu þegar maður vill breyta. Þarf að komast að því hvar maður fær svona vegglímmiða.
 
 

 
Þessar myndir eiga það sameiginlegt að sýna litrík herbergi þar sem leikföngin fá að njóta sín í einföldum hillum.
 
 
Mér finnst þessi forma-lengja æðisleg og væri auðvelt að gera sjálf. Guttinn er einmitt duglegur að benda mér á hvað er hringur og þríhyrningur, jafnvel rétthyrningur!
 
 
Flott skraut í einlitu. Veit samt ekki hvernig mér gengi að brjóta pappírinn....
 

 
Þessar sætu myndir frá Etsy. Myndin með tölustöfnum myndi höfða til guttans míns (hann er mjög áhugasamur um tölustafi og klukkuna þessa dagana) og þessi rebbamynd er nú bara nokkrum númerum of sæt.
 
 

6.7.14

Glefsur af grænum lit

 
Smá glefsur frá svefnherberginu sem er nýmálað og komið með þennan fallega og milda græna lit á einn vegginn.

 
Föndurhornið mitt er í svefnherberginu og það var kominn góður tími á að taka til og skipuleggja þar, ég er enn að vinna í því!
 
Ég splæsi í fleiri myndir þegar þetta verður tilbúið
(og skála við manninn minn sem víst eitthvað örlítið þreyttur á að það taki nokkrar vikur að endurskipuleggja, hehemm!)