29.5.14

Nokkur einföld en ólík kort

Mér datt í hug að sýna ykkur nokkur kort sem ég hef dundað við undanfarið:

 
Einlitur pappír, falleg vísa og laufblaðastimpill og blek frá Stampin´Up
 
 
Aftur einlitur pappír og stimpill frá Stampin´Up
 
 
Ég skellti í þetta kort fyrir yndisleg vinahjón okkar, textann getið þið fundið hérna
 
 
Afar fljótlegur merkimiði
 
 
 

20.5.14

Frænkuheimsókn: föndur, dekur og heimspeki

 
Í janúar sýndi ég ykkur myndir af "jólagjöf" systursonar míns, en systkinabörnin sem eru hérna á suðvesturhorninu fengu öll gjafabréf á heimsókn og samveru í jólagjöf þetta árið.
 
 
Núna í maí kom 13 ára frænkan loks til mín og það var ekki síður skemmtilegt.
 Í gjafabréfinu stóð að við myndum setja á okkur andlitsmaska og þar sem ég er alltaf að æfa mig í að nota náttúrulegri og umhverfisvænni snyrtivörur skelltum við í einn heimagerðan og ofureinfaldan.
 
 
Mauka smá avakadó, 1 matskeið af hunangi, 1 teskeið af matarolíu og skvetta af sítrónu.
Blanda vel saman og maka á sig.
Og nei, þið fáið enga mynd af okkur með grænan maska í andlitinu! En við skemmtum okkur konunglega við að sulla þetta og húðin varð silkimjúk á eftir.
 
Í gjafabréfinu stóð að hún mætti velja eitt af eftirfarandi:
a) horfa saman á bíómynd
b) spila saman
c) föndra saman
Hvað haldið þið að 13 ára unglingurinn hafi valið?
 
 
Auðvitað valdi hún að föndra!
Græjurnar og góssið var rifið fram og það stóð ekki á sköpunargleðinni hjá henni.
Fyrst vildi hún fá að skreyta hleðslusnúruna fyrir símann sinn með mynsturlímböndum:
 
 
Svo vildi hún fá að gera eitthvað fallegt í ramma (stelpan með puttann á púlsinum!) og gerði þessa tvo æðislegu ramma:
 
 
Ekki má gleyma kortunum:
 
 
Þetta föndurbras var auðvitað mjög skemmtilegt en dýrmætast fannst mér að fá að eyða svona miklum tíma með henni. Við grínuðumst, borðuðum uppáhaldsmatinn hennar, guttinn minn fékk að kynnast henni betur og svo var svo gaman að spjalla.
Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar og eins og alltaf þegar maður spjallar við góða vini lærðum við mikið hvor af annarri.
 
Á leiðinni heim spyr hún hver hafi klesst á bílinn minn. Ég svara eins og er, það bakkaði kona á hann en þetta er lítið mál, tryggingarnar hennar borga. Hún spyr mig þá hvernig tryggingar virki og við ræðum það fram og til baka. Þessar tryggingaumræður minntu mig á samtal sem við höfðum átt með annarri frænku síðasta sumar:
 
Frænkurnar 12 ára eru að horfa á "Minute to win it" og eru mjög spenntar fyrir peningaupphæðunum sem safnast upp. Þær spyrja frænda sinn í sífellu: " Hvað er það mikið í íslenskum peningum?".
Að lokum gengur keppandinn út með jafnvirði 11 milljóna króna og frænkurnar andvarpa: "ó , hvað ég væri til í að eiga 11 MILLJÓNIR!".
Raunsæi frændinn svarar" Þetta eru ekki skattfrjálsir vinningar, þú ættir sennilega bara 7 milljónir eftir skatt". Frænkurnar svöruðu þá hneykslaðar: "já, en við erum bara börn, við eigum ekki að borga skatt!". Þá blandaði ég mér inn í umræðurnar og sagði að mér þætti nú bara sanngjarnt að þær borguðu smá skatt ef þær væru svona ríkar, þær fengju nú heilmikið sem að kostaði mikla peninga, eins og skólagöngu. Frænkurnar litu afar hneysklaðar á mig og bentu mér á að þær hefðu ekkert val, þær YRÐU að fara í skóla og yfir höfðum þeirra hékk hugsanablaðra: "á nú að minnast á svöngu börnin í Afríku sem fá ekkert að borða?"
Ég: Kostar ekki u.þ.b. milljón skólárið á grunnskólabarn, mig minnir það. Frændinn samsinnir og ég held áfram: " Frændi ykkar á engin börn og áður en guttinn fæddist átti ég heldur engin börn, þannig að við höfumm í mörg ár borgað skatta svo að þið kæmust í skóla". "Huh" heyrðist í ósannfærðum frænkunum.
Ég: " Hafið þið farið til læknis?" Frænkurnar: "já, og það er ókeypis fyrir börn að fara til læknis" (snjallar!) Ég: "já, sem betur, en það kostar samt fullt af peningum sem að allt fólkið á Íslandi borgar saman í skatta svo það sé ókeypis fyrir börn að fara til læknis". Frænkurnar eru nú ekki alveg sannfærðar um þetta. Ég: "Hvað ætli einn tími hjá heimilislækni myndi kosta ef maður borgaði það sem hann kostar í alvörunni?" Frændinn giskaði á tíuþúsundkall og frænkurnar hváðu: "Tíu þúsund kall, bara fyrir að hitta lækni?"
Frænkurnar setti hljóðar og það var augljóst að þær höfðu um mikið að hugsa. Mér fannst þetta orðið mátulegt af skattaumræðum og benti þeim á hvað við værum heppin að búa í landi þar sem fólk getur farið til læknis, gengið í skóla og núna væri kominn kvöldmatur (Frænkurnar voru einmitt svolítið skúffaðar að ég vildi ekki panta pitsu því það væri svo dýrt. Við höfðum farið í bakaríið fyrr um daginn, ég sagði að það yrði að duga).
Við njótum ljúffengs matarins saman og þá hrekkur upp úr annarri frænkunni: "Ég veit um stað þar sem maður fær ókeypis mat!" Nú, hvái ég. "Rónarnir, þeir fá ókeypis mat" svarar snjalla frænkan þá. "Já, það er gott" svara ég "en veistu hverjir borga matinn fyrir rónana?" Hún vissi það ekki og ég sagði henni að það væri líka borgað með sköttunum margumtöluðu. Nú ofbauð 12 ára frænkunni "Borgum við mat fyrir aumingja og alkahólista sem nenna ekki að vinna sjálfir!?!". Nú kom sér vel ég hef svolitla kennaraæfingu í að halda andlitinu og ég náði að svara: "já, því að flestum finnst það betra en að láta þá svelta, þó þeir séu alkahólistar og aumingjar". Frænkunum var nú öllum lokið og við ákváðum að snúa okkur að auðmeltanlegri viðfangsefnum eins og pappírsföndri og spilamennsku.
 
 
 
Þessi gjafabréf á samveru með systkinabörnunum hafa svo sannarlega nýst vel.
Ég er ekki frá því að ég hafi grætt mest á samverunni með þessum snillingum.
 
* athugasemd viðbætt síðar: Takk fyrir athugasemdina, það hefði mátt koma betur fram í frásögninni að það er ekki sama sem merki á milli alkahólista og aumingja, við tókum þá umræðu síðar þó að það komi ekki fram hér.
 

11.5.14

Mæðradagurinn og Pollapönk

....eiga kannski ekkert sérlega mikið sameiginlegt nema helgina sem er alveg að verða búin.
 
Mamma mín er ein af þessum frábæru ofurmömmum og fékk auðvitað kort og smá gjöf í tilefni dagsins.

 
Ég klippti hjarta úr út pappír og límabandaði svo yfir það og allt kortið. Skar svo hjartað út og dúllaði (hvernig finnst ykkur það sem þýðing á "doodling"?) inn í hjartað. Það kom mér á óvart hvað það er auðvelt að dúlla svona. Hugmyndin að kortinu er fengin héðan.
 
Þeið getið skoðað kortin mín frá því í fyrra hér
 
Svo var ég búin að lofa ykkur svolitlu Pollapönki.
Hér var auðvitað Júróvisjónpartý og á meðan tveir litlir gormar biðu spenntir eftir að gleðin hæfist var bæði horft á Pollapönk á YouTube og svo skellt í einföldustu þemaskreytingu fyrr og síðar:
 
 
Það kom að því að það kom sér vel að eiga kertastjaka í allskonar litum.
Nema bleikum.
Ég átti bleikt mynsturlímaband, það reddaði málunum.
 
Til hamingju með daginn allar mömmur!
 
p.s. Rósir og rjómi eru loksins komin á Fésbókina, auðvelt að fylgjast með þar.