10.4.14

Grænn apríl #1 KERTI


 
Ég nota kerti oft og mikið.
Þau geta gert gæfumuninn í að skapa stemningu.
Ég tengi kerti og kertaljós við hlýleika, notalegheit og stundum hátíðleika.
 
Mér skilst að það sé ekki sama úr hverju kertin eru gerð og á vef Umhverfisstofnunar má finna eftirfarandi fróðleik:
 
Þegar versla á kerti er um margt að velja. Hægt er að velja mismunandi liti, stærð og lögun en auk þess eru umhverfisáhrif kertanna mismikil. Flest kerti eru framleidd úr hráolíuafurðum (yfirleitt parafíni) sem mynda koltvíoxíð þegar þau brenna. Því hafa slík kerti áhrif á loftlagsbreytingar, rétt eins og olía og gas. Auk þess eru umhverfisáhrif hráefnavinnslunnar umtalsverð.

Kerti úr náttúrulegum afurðum eru betri fyrir umhverfið. Meðal þeirra náttúrulegu efna sem notuð eru í kerti eru sojavax, býflugnavax, tólg og stearín sem er unnið úr dýrafitu. Nokkrir íslenskir aðilar framleiða kerti úr endurunnum kertaafgöngum og er það án efa betra fyrir umhverfið. Ilmefni eru alltaf varhugaverð í neytendavörum, líka í kertum þar sem þau geta valdið ofnæmi.

Auðveld leið til að velja umhverfisvænt er að velja Svansmerkt. Svanurinn hefur þróað viðmið fyrir kerti en Svansmerkt kerti þurfa að vera gerð úr meira en 90% endurnýjanlegu hráefni. Auk þess eru gerðar kröfur til hámarks leyfilegrar sótmengunar frá kertunum og ilmefni ekki leyfð. Umbúðir þurfa einnig að uppfylla umhverfiskröfur.

 
Umhverfisglaða ég hugsaði að núna ætlaði ég alltaf að muna eftir að kaupa umhverfisvænni kertin en þegar ég stóð í einhverri búðinni gat ég ómögulega munað hvort var betra stearín eða parafín, eða hvað sem þetta heitir!
 
Svo uppgötvaði ég að Duni er með svansmerkt kerti og þau fást í flestum matvörubúðum. Þannig að ég byrjaði að kaupa þau stundum.
 
Það er misjafn hversu vel kertin í IKEA eru merkt í búðinni en á heimasíðunni má alltaf sjá hvort að kertin eru úr stearíni eða parafíni.
 
Núna þegar ég sé kerti hef ég næstum því meiri áhuga á hvað stendur á límmiðanum á botninum á þeim heldur en útlitinu. Næstum.
 
 
 
Fyrir þá sem vilja ekki kerti úr dýrafitu má benda á kerti út soja- eða býflugnavaxi. Ef þið vitið hvar slík kerti fást megið þið gjarnan segja mér og öðrum frá því í athugasemdum.
 
 
 
Ég hef sett mér það markmið að velja umhverfisvænni kerti þegar ég splæsi í kerti, en að sjálfsögðu nota ég áfram þau kerti sem ég á, það er varla betra fyrir umhverfið að henda þeim ónotuðum eða hálfnotuðum í ruslið.
 
Svo má skila öllum kertaafgöngum í Sorpu (eða á afgreiðlsustöðvar Olís) þar sem þau eru endurnýtt í kertagerð.
 

1 comment:

  1. Takk fyrir þennan pistil, gott að hafa þetta í huga :)

    ReplyDelete