31.12.14

Þrettán á þriðjudegi # 10 jólin 2014

 
Þegar maður gefur sér ekki tíma til að blogga á aðventunni safnast ýmislegt upp, þess vegna er lúxusfærsla í dag með þrettán myndum.
 
 
Frábært þegar hlutirnir koma í svo fallegum kössum að það þarf bara að setja borða utan um. Og hitt fer bara í sætan poka. Sannkölluð hraðinnpökkun!

 
Klippti ofurlitla grein og límdi á merkimiða.
 
 
Guttinn er glysgjarnari en mamman. Hann fékk að velja pappírinn, klippti hann með aðstoð og límdi límböndin. Vildi svo fá að skreyta með jólalímmiðum og velja merkimiða.
 
 
Fjölskyldan hittist til að skreyta piparkökur.

 
Hjá litlum gormum voru kökurnar svona fínar

 
og hjá þeim eldri svona.

 
Og við skreyttum piparkökuhús, gormunum til mikillar gleði.
 
 
Það var jólalegt og fallegt veðrið í desember
 

Jólamaturinn.
Sem betur fer er maðurinn minn atvinnukokkur, því að ég vildi hamborgarahrygg, hann vildi svínalundir (sem mér sýnist vanta á myndina) og M&P vildu hnetusteik.....og svo auðvitað tvennskonar sósur og kartöflur, heimalagað rauðkál, þrjár tegundir af salati .....
 
 
og við borðuðum á okkur gat!
 
 
Þetta var ein af vinsælli jólagjöfunum, enda skemmtilegt og einfalt spil fyrir unga sem aldna

 
 
 
Þetta nasl er sjúklega gott, Philadelpia rjómaostur, sweet chilli sósa yfir. Borið fram með nachos. Hugmynd fyrir gamlárs?

9.12.14

Þrennt á þriðjudegi #9 Á aðventu

 
Eins og lesendur mínir vita fékk maðurinn inn bjórdagatal frá mér í ár sem vakti mikla lukku. Hann opnar það gjarnan á kvöldin og laumar svo einhverjum sætum mola í pokann og réttir mér (talandi um að endurnýta!). Hann kom mér samt á óvart einn daginn og kom heim með fagra rós. Því birtist hérna fyrsta myndin af rós á bloggsíðu sem að heitir Rósir og rjómi.
 
 
Í yndislegu vetrarveðri er fátt betra en að ylja sér með heitum drykk. Ég gæti alveg drukkið heitt kakó á hverjum degi en af skynsemisástæðum mæli ég með þessi tei, jólalegur kryddkeimur en ekki of sterkur. Það skemmir ekki fyrir að teið er lífrænt og sanngirnisvottað.
 
 
Við mæðgurnar hittumst um daginn og skelltum í sörur. Við ákváðum að prófa það sem "allir" eru að tala um, Þetta er svo sannarlega fljótlegra en þar sem við vorum þrjár fór mestur tími í að bíða eftir að hvert lag kólnaði. Niðurstaðan úr þessari tilraun er því að þetta sé sniðugt þegar maður er einn að baka en af margir eru að baka saman er skemmtilegra og fallegra að gera sörurnar á hefðbundinn máta. Sörurnar bragðast þó ávallt vel, sama hvor aðferðin er valin.

2.12.14

Bjórdagatal

 
 
Ég og maðurinn minn höfum stundum gert jóladagatöl fyrir hvort annað og í ár ákvað ég að vera ótrúlega góð eiginkona og splæsa í bjórdagatal.
 
Ég arkaði í Vínbúðina og keypti hvorki meira né minna en 18 mismunandi tegundir af jólabjór og svo uppáhaldsbjórtegundir mannsins míns. Konan sem var á kassanum á undan mér var greinilega líka í sömu erindagjörðum og ég, enda sennilega fáir sem annars kaupa 24 staka bjóra! 

 
Ég notaði bréfpoka úr Vínbúðinni til þess að pakka þeim inn
 
 
Tölustafina má finna fríkeypis til að prenta út hérna.
 
 
Stundum skreytti ég smá með tússpenna
 

Ég fléttaði meira að segja eitt bandið...
 
 
Bjórdagatalið 2014

30.11.14

Bókadagatal fyrir guttann

 

 
Maðurinn minn og guttinn fá báðir dagatal í ár og núna í blálokin á nóvember náði ég að klára þau og taka myndir til þess að sýna ykkur....
 
 
Guttinn fær bókadagatal. ég er ekki búin að finna til 24 bækur núna eins og sést á körfunni, en það er allt í lagi, ég bæti bara við þegar ég kemst á bókasafnið og svo ætla ég líka að fá nokkrar lánaðar frá mömmu.
 
 
Þetta eru alls konar bækur, nokkrar jólabækur, t.d. er "Jólin koma" þann 12. des og þá byrjum við að lesa um jólasveinana. Ég keypti nokkrar bækur á bókamarkaði í haust, annað eru bara bækur sem hann á og við höfum ekki lesið lengi. Mér finnst alls ekki nauðsynlegt að hafa þetta allt nýjar bækur, gleðin felst í að opna spennandi pakka á hverjum degi og eiga notalega stund saman þegar bókin er lesin.
 
 
Ég vildi hafa merkimiða með tölustöfunum því að guttinn hefur svo mikinn áhuga á þeim. Þessa fallegu tölustafi má finna hérna.
 
 
 

27.11.14

Jólapappír og jólapokar

 
 
Smá jóladúllerí með guttanum
 
 
Stundum kemur hann til mín og biður um að fá að mála og um daginn gerðum við einmitt það áður en hann fór upp í rúm (og ég eyddi dágóðum tíma í að þrífa málninguna af borðinu því að ég gleymdi að setja eitthvað undir!)
 
 
Við notuðum piparkökumót úr "eldhúsinu hans" og hann var ótrúlega lunkinn við að setja málningu á kantana til þess að stimpla
 
 
 
Útkoman var svona allskonar, hann stimplaði, ég stimplaði og hann málaði eitthvað voða fínt. Hann valdi sjálfur litina, ég hefði vafalaust valið öðruvísi liti, en hann var svo ánægður með þetta!
 
 
Næsta kvöld mundi ég allavegana eftir að setja dagblað undir!
 
 
Það voru miklar og skemmtilegar pælingar um liti og litablöndun
 
 
Annars var bara málað á pokana eins og innblásturinn bauð
 
 
og auðvitað endað á glimmeri að ósk guttans.
 

24.11.14

Laufabrauðsbakstur

Þar sem fyrsti í aðventu nálgast óðfluga kemur fyrsta jólatengda færsla þessa árs um ljúfan laugardag með stórfjölskyldunni þar sem laufabrauð voru skorin út og steikt. Ég notaði tækifærið og tók nokkrar fallegar myndir fyrir heimasíðuna hans pabba en hann gerir fallegu laufabrauðsjárnin sem sjást á myndunum.
 
 
Útvarpið sem að langafi minn fékk þegar hann var áttræður var dregið fram úr geymslunni og naut sín í bakgrunni. Jólakúlurnar eru frá æskujólum mömmu minnar og alveg hreint sérlega fallegar.
  
 
En aðallega var ég að mynda laufabrauðsjárnin og skemmti mér vel við að dúlla við uppstillingar
 
 
Eins og þessi fallegu lúnu box
 
 
eða þessar sígildu gömu matreiðslubækur

 
Þessi uppstilling er alveg sérlega krúttleg, þetta er uppskriftabókin hennar mömmu og einhver bræðra minna sem var nýbúinn að læra að skrifa sá sig knúinn til að bæta mikilvægu innihaldsefni við, enda vita allir að tveir apar gera gæfumuninn í öllum bakstri!
 
 
 
Mér fannst ótúrlega gaman að prófa mig áfram með mismunandi gróf járn, niðurstaðan var sú að það væri bæði betra!

 
Best var þó lokaútkoman, stafli af ljúffengu, nýsteiktu og stökku laufabrauði
 
 
Okkur fannst ekki amalegt að skola því niður með smá jólablandi
 
  

19.11.14

Þrennt á þriðjudegi #8 Grænt og vænt

Nokkrir grænir og umhverfisvænir hlutir frá síðustu viku sem mig langaði til að deila með ykkur.
 
 
Ég kaupi stundum lífræna sápu, en ekki alltaf þar sem hún er mjög dýr. Þá kaupi ég svona svansmerktar sápur og smelli nokkrum ilmdropum út í til að fá góða lykt. Eða kannski að "unaðslegur ilmur" lýsi því betur?

 
Ég er dekruð af tengdamömmu minni og fæ iðulega svona æðislegar lífrænar snyrtivörur í afmælisgjöf. Sérlega góð gjafahugmynd!
 
 
Rakst á þennan umhverfisvæna tannbursta um daginn sem er ekki búinn til úr plasti heldur maís sterkju. Spennandi hugmynd til þess að minnka plastnotkun.
 

7.11.14

Glimrandi töframaður

 
Við vorum boðin í sérlega skemmtilegt barnaafmæli um daginn þar sem afmælisbarnið óskaði eftir því að vera prins í einn dag, alvöru prins! Mamma hans og pabbi voru drottning og kóngur og svo máttu gestirnir allir mæta í búning. Guttanum fannst lítið spennandi við að vera prins eða prinsessa og valdi að fara sem töframaður, enda góður töframaður nauðsynlegur í öllum höllum!
 
Eins og sjá má er búningurinn heimagerður. Skikkjan er rautt efni úr Rúmfó, guttinn var alveg harður á því að hann vildi hafa rauða skikkju!
Pípuhattinn gerðu feðgarnir saman úr svörtu kartoni.
Töfrasportinn er trjágrein sem að við fundum og klipptum saman. Þegar heim var komið vildi guttinn fá að skreyta töfrasprotann með rauðu glimmeri.

 
Föndurglaða mamman lumar á flestum litum glimmerlitrófsins og guttinn valdi nákvæmlega þann rauða lit sem hann vildi.
 
 
Lími makað á greinina og svo glimmerað af hjartans lyst! Takið eftir samanbrotna blaðinu sem er undir, það auðveldar til muna að hella umfram glimmerinu aftur í glasið.
 
 
Hókus pókus, kominn svona líka glimrandi fínn töframaður!