3.12.13

Óður til lífsins

Mig langar til þess að deila þessum flottu styrktartónleikum með ykkur. Undanfarin ár hef ég verið svo heppin að syngja með Reykjalundarkórnum en hann var stofnaður árið 1986 og er þetta því 28. starfsár kórsins.
Haustið 2013 var sú staða komin upp að ekki var nægjanlegur fjöldi til þess að halda starfsemi kórsins áfram. Ákveðið var að leggja kórinn niður með glæsibrag og blása til stórra styrktartónleika fyrir Reykjalund sem hefur í gegnum árin sýnt kórnum mikinn velvilja og stuðning.
Haft var samband við eldri kórfélaga og tóku þeir vel í að ljúka þessu með okkur og erum við nú um 50 félagar sem syngjum á þessum tónleikum. Á tónleikunum koma einnig fram margir góðir gestir; Álafosskórinn, Karlakórinn Stefnir, Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og síðast en ekki síst Páll Rósinkranz söngvari. Gaman er að segja frá því að Birgir D. Sveinsson kynnir en hann er bróðir Lárusar Sveinssonar, fyrsta stjórnanda kórsins.   
Eins og allir vita eru litlar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana í dag og alls staðar vantar tæki og tól.  Allur ágóði af þessum tónleikum rennur því óskiptur til Reykjalundar til tækjakaupa.
 

Mætum öll létt í lund og látum sönginn efla Reykjalund!

p.s. ég verð að monta mig, Sigurborg systir hannaði þessa flottu auglýsingu fyrir okkur, mér finnst hún æði!
 

No comments:

Post a Comment