21.7.13

12 ára gestabloggari föndrar

Um daginn fékk ég 12 ára frænku mína í heimsókn og að sjálfsögðu fékk hún að föndra svolítið. Mér finnst svo ótrúlega gaman að sjá hvað börn föndra skemmtilega og fallega hluti, þau eru oft ekki að gera þetta svona flókið eins og við fullorðna fólkið.
 
 
Fyrst bað hún um að pakka gjöf handa góðri vinkonu sinni inn og ég stakk upp á að skreyta gjafapoka. Hún valdi þennan fína pappír og stakk svo upp á því að binda borða um naglalökkin og skreyta pokann með þeim- litirnir og umbúðirnar á naglalökkunum passaði svona líka vel við pappírinn!
 
En föndurþörfinni var ekki svalað og hún bað um að gera afmælisgjöf fyrir mömmu sína.
Hún byrjaði á að mála ramma með vatnsþynntri málingu og áferðin varð mjög flott.
 
 
Svo fundum við mynd af þeim mæðgum og hún bað mig líka um að "googla" fyrir sig ljóð.
Henni leist best á þetta ljúfa ljóð:
 
Til mömmu
Elskulega mamma mín,
mjúk er alltaf höndin þín,
tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðinn er
allt það launa skal ég þér.

S.J.J.
 
 
Eins og margir 12 ára krakkar í dag á hún snjallsíma og er bæði á Facebook og Snapchat og þurfti strax að fá að tengjast netinu heima hjá mér þegar hún kom. Þegar ég spurði hana hvort að ég mætti setja myndir af fína föndrinu hennar á bloggsíðuna mína kom á hana hik; "Hvernig er eiginlega bloggíða?". Ég sagði henni að það gætu allir skoðað það á netinu, ekki bara vinir manns. Þá spurði hún hvort að margir karlar skoðuðu síðuna mína en ég sagðist halda að þeir væru sennilega mjög fáir! Hún vissi að hún mætti ekki setja myndir af sér hvar sem er á netið og við sammældumst því um að ég gerði andlitin á myndinni óskýr áður en ég birti myndina á blogginu.
Þessi klára stelpa var sko alveg með þetta á hreinu, ég er mjög stolt af henni!
 
 
Auðvitað varð afmæliskort í stíl að fylgja fínu gjöfinni.
 
 
 

2 comments:

  1. Flott hja henni!
    Kv. Brynja

    ReplyDelete
  2. en gaman að fá svona heimsókn:) svo fallegt hjá henni, vá hvað mamma hennar hefur orðið glöð:)
    kveðja Sif

    ReplyDelete