31.7.13

Sumarbloggpartý 2013

 
Á síðasta mögulega degi kemur framlag mitt í sumarbloggpartýið hjá henni Stínu Sæm.
 
Í fyrra puntaði ég litlu svalirnar mínar svona (sjá nánar hér):
 
 
Það hefur lítið breyst á svölunum góðu þannig að í ár ákvað ég að sýna ykkur hvað ég hef gert skemmtilegt með guttanum á svölunum, og stillti því voða fallega upp!
 
 
Það hangir enn uppi fánalengja síðan í afmæli litla guttans og ég hugsa að ég leyfi henni að vera eitthvað áfram, hún er svo litrík og skemmtileg.

 
Notalegt að setjast niður hér og glugga í bók og narta í epli

 
Hérna má sjá litla guttann, hann hafði ekki lítið fyrir því að drösla þessu öllu út á svalir til þess að lesa úti á svölum eins og pabbi sinn.
Þessir samanbrjótanlegu tjaldstólar eru hægindarstólarnir á svölunum okkar; þægilegir, taka lítið pláss í geymslu og hægt að taka með hvert sem er!
 
Úti á svölum er líka hægt að mála með vatni:
 

 
Það gerir ekkert til þó að þessi "málning" fari í fötin og sullist niður!

 
Það er líka sígilt að blása sápukúlur og kríta.
 
 
Úti á svölum er líka þessi fata. Í henni eru skeljar sem má leika með og svo safnast í hana rigningarvatn sem má sulla með.
 

 
Einnig má gleðja mömmu sína með því að nota rigningarvatnið til þess að skúra svalirnar þegar maður fékk lánaðan kúst til þess að sópa!
 
 
Ekki má gleyma einhverju hollu og góðu til þess að narta í.

 
Endilega skoðið öll skemmtilegu bloggin sem tóku þátt í bloggpartýinu hjá Stínu hér.
Svo má ég til með að benda þeim sem eru áhugasamir um að fegra svalirnar sínar á þetta hér.
 
 
 
 
 
 

27.7.13

Ballerínukort


Ég gerði ballerínukort fyrir 5 ára afmælisstelpu um daginn. Hugmyndina fann ég á Pinterest (hvar annars staðar!) og útfærði hana aðeins.
Ballerínan sjálf er dúkkulísa sem ég fann hérna (ó, fullt að fríkeypis dúkkulísugóssi hægt að finna í netheimum!). Pilsið er eins einfalt og það lítur út fyrir að vera, hvítur pappír brotinn eins og harmonikka.
 
 
Þetta fallega ljóð fann ég hérna og er það eftir Kristjönu E. Guðmundsdóttur.
Mér finnst þetta alveg sérstaklega fallegt ljóð og sé fyrir mér að ég eigi eftir að nota það í margskonar kort.
 
 
Ekki má gleyma framhliðinni! Hérna er ballerína frá FPTFY í aðalhlutverki ( eruð þið ekki örugglega búnar að skoða þessa æðislegu síðu!?! Ein af mínum uppáhalds!)
 
 
Góða helgi!
 
 
 

21.7.13

12 ára gestabloggari föndrar

Um daginn fékk ég 12 ára frænku mína í heimsókn og að sjálfsögðu fékk hún að föndra svolítið. Mér finnst svo ótrúlega gaman að sjá hvað börn föndra skemmtilega og fallega hluti, þau eru oft ekki að gera þetta svona flókið eins og við fullorðna fólkið.
 
 
Fyrst bað hún um að pakka gjöf handa góðri vinkonu sinni inn og ég stakk upp á að skreyta gjafapoka. Hún valdi þennan fína pappír og stakk svo upp á því að binda borða um naglalökkin og skreyta pokann með þeim- litirnir og umbúðirnar á naglalökkunum passaði svona líka vel við pappírinn!
 
En föndurþörfinni var ekki svalað og hún bað um að gera afmælisgjöf fyrir mömmu sína.
Hún byrjaði á að mála ramma með vatnsþynntri málingu og áferðin varð mjög flott.
 
 
Svo fundum við mynd af þeim mæðgum og hún bað mig líka um að "googla" fyrir sig ljóð.
Henni leist best á þetta ljúfa ljóð:
 
Til mömmu
Elskulega mamma mín,
mjúk er alltaf höndin þín,
tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðinn er
allt það launa skal ég þér.

S.J.J.
 
 
Eins og margir 12 ára krakkar í dag á hún snjallsíma og er bæði á Facebook og Snapchat og þurfti strax að fá að tengjast netinu heima hjá mér þegar hún kom. Þegar ég spurði hana hvort að ég mætti setja myndir af fína föndrinu hennar á bloggsíðuna mína kom á hana hik; "Hvernig er eiginlega bloggíða?". Ég sagði henni að það gætu allir skoðað það á netinu, ekki bara vinir manns. Þá spurði hún hvort að margir karlar skoðuðu síðuna mína en ég sagðist halda að þeir væru sennilega mjög fáir! Hún vissi að hún mætti ekki setja myndir af sér hvar sem er á netið og við sammældumst því um að ég gerði andlitin á myndinni óskýr áður en ég birti myndina á blogginu.
Þessi klára stelpa var sko alveg með þetta á hreinu, ég er mjög stolt af henni!
 
 
Auðvitað varð afmæliskort í stíl að fylgja fínu gjöfinni.
 
 
 

18.7.13

2 ára afmæli guttans #3 Hringekjukakan

 
Nú er komið að því að dást að hringekju afmæliskökunni. Hugmyndina fann skeytióða mamman á netinu en það kom í hlut pabbans að útfæra hana!
 
 
Við gerðum kökuna nú bara úr því sem var til heima og vorum ekkert að stressa okkur of mikið, það er nefnilega ekkert gaman að halda afmæli ef undirbúningurinn er bara stress og leiðindi!
 
Fyrsta af öllu er snúningsdiskur frá IKEA (þessi leynist á mörgum heimilum!)
 
 
ljúffeng kaka að eigin vali (gerið gat í miðjuna, mjög smökkunarvænt!)
 
 
Þá er að búa til stöðuga súlu í miðjuna
 

  festa súluna á pappa og botn úr bökunarformi fyrir efri hlutann
 
 
Klæða svo allt með álpappír
 
 
og setja aðra köku þar (okkar fékk smá sprungur við flutninginn, en bragðið bar engan skaða af!)
 
 
Ég verð að monta mig af því hvað maðurinn minn er hugmyndaríkur en hann notaði maukuð jarðarber til þess að fá þennan fína bleika lit og maukað mangó og túrmerik fyrir gula litinn!
 
Nokkrir grillpinnar, pappírsrör og útklipptar myndir og tadaaaaa!
 
 
ótrúlega sæt hringekjukaka
 

sem snýst!
(hafðu kveikt á hljóðinu)
 
 
Kakan var ótrúlega stöðug og gestirnir gátu skorið sér sneiðar af báðum hæðum án þess að taka kökuna í sundur!
 
 
 
 
Nokkrar myndir af smáatriðum
 
 
Ég notaði servíettur í þremur litum, fannst þær allar svo fallegar!
Líka græn og blá pappírsrör.

 
 
Þessi fánalengja var bara úr einlitum pappír
 
 
en með sömu fallegu myndunum!
 
 
Þessi æðislega kanína varð að skreyta hillurnar, hún hefur fylgt pabbanum frá fæðingu og er snjáð í samræmi við öll knúsin sem hún hefur fengið í gegnum tíðina.
 
 
Að lokum vil ég þakka góðar viðtökur við þessum afmælisfærslum, heimsóknir á síðuna hafa sjaldan verið fleiri og fallegu athugasemdirnar gleðja mig mikið :-)
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

16.7.13

2 ára afmælisgutti #2



Í gær skyldi ég við ykkur með þessari mynd og lofaði framhaldi af afmælisdúlleríinu....
 
Hérna má sjá sætu myndirnar sem ég keypti á Etsy notaðar í kökuskraut.
 
 
Þó ég eigi slatta af pappírsföndurdóti á ég ekki enn hringlaga og "scallop" mynsturgatara eins og maður sér svo oft notað.
Ég notaði bara misstórar límbandsrúllur til þess að strika eftir misstóra hringi, klippti út og límdi á tannstöngla. 
 
 
Diskinn fagra er ég með í ótímabundnu láni frá mömmu og ég nota hvert tækifæri til þess að sýna hann því mér finnst hann einstaklega fallegur. Takið bara eftir fallega skuggamynstrinu.
 
Myndirnar góðu voru líka notaðar á fánalengjur /veifur
 
 
Þessar buðu gesti velkomna á stigaganginum
 
 
hjá bangsakrúttinu kúrði þetta krútt
 
 
Minni gerðin af veifunum fékk að njóta sín á afmæliskökunni
 
 
Svona kökuskreyting er svo einföld að ég leyfi mér að fullyrða að hún sé á allra færi
OG það er auðvelt að laga þetta að allskonar þemum
OG það er hægt að setja þetta á næstum hvernig köku sem er!
 
 
 
 
Næstum (en bara næstum!) því jafn sætur og afmælisstrákurinn okkar

 
og sætur "votti" líka.
 
 
Í næstu færslu er svo allt um meistaraverk pabbans sem sést á þessari mynd:
 
 
það var nú ekki hægt að hafa samskonar afmælisköku í sitt hvorri afmælisveislunni! :-)
 
 

 
 
 
 
 

15.7.13

2 ára afmælisgutti

 



Ótrúlegt en satt þá er litli sólargeislinn minn orðinn 2 ára. Hérna getið þið lesið um fyrsta afmæli guttans sem var einmitt haldið úti en það þorir ekki nokkur sunnlendingar á stóla á veðrið þetta sumarið og því var afmælisfjörið bara haldið heima.
 
Skreytióðu mömmunni fannst það svosem ekkert verra!
 
Undirbúningurinn hófst með því að leita eftir innblæstri á Pinterest. Það verður sennilega ekki oft í framtíðinni þar sem ég ég fæ að ráða þemanu í afmælinu svo að ég nýtti tækifærið og ákvað að hafa þemað gamaldags eða "vintage". Guttinn er hrifinn af öllum farartækjum og dýrum (eins og sennilega flest börn á hans aldri!) og því vildi ég hafa "vintage" dýr og farartæki.
 
Fyrst var að gera boðskort:
 
 
Ég fann þessa æðislegu mynd á Pinterest og fannst hún henta fullkomlega.

 
Boðskortin voru afar einföld og fljótleg en glöddu marga litla boðsgesti sem voru ekki lítið ánægðir að fá boðskort í pósti!
 
Þegar maður er kominn með svona sértækar óskir er lítið úrval af fríu prentefni (free printables) og leit mín á veraldarvefnum leiddi mig inn á Etsy. Þar er hægt að finn ógrynni af fallegu prentefni fyrir hvaða þemaafmæli sem er sem kostar oft ekki mikið og maður getur borgað með PayPal, þvílík snilld! Ég endaði á að kaupa þetta tvennt, eftir mikla yfirlegu og valkvíðaköst!
 

 
Ég sá fyrir mér að allar þessar litlu myndir (í mjög hárri upplausn!) væri hægt að nota til þess að búa til flest af því sem að ég vildi gera.
Eins og merkimiða:
 
 
Eða skraut á gjafakörfuna:
 
 
Allir litlu gestirnir fóru heim með svona fínar sápukúlur
 
 
Ég prentaði óvart allt of mikið af myndum fyrir boðskortin en það nýttist svona líka vel til þess að flikka upp ljótar sápukúlu umbúðirnar.
 
Núna heyrist mér afmælisstrákurinn var að vakna af lúrnum sínum en ég get sýnt ykkur sýnishorn af næstu færslu: