29.6.13

Þrítugsafmæli, fertugsafmæli og útskrift!

Ég var svo heppin að fá að fagna þessum áföngum með vinkonum mínum og auðvitað fengu þær allar kort í tilefni dagsins.


Þetta kort var fyrir þrítugsafmæli þar sem þemað var "Midsommer". Ég gat því miður ekki mætt í afmælið með blómakrans um höfuðið en skellti einum á kortið í staðinn.
 
 
Svo var það fertugsafmæli og vígsla á sérlega fallegum stimplum, bleki og pappír í stíl!
 
 
 
Síðast en ekki síst útskriftargjöf fyrir góða vinkonu
 
 
Í þennan merkimiða notaði ég frítt prentefni (e. free printables) af þessari síðu sem að ég rakst á nýlega (og er vel þess virði að skoða!).
 
 
Notaði fiðrildin líka til þess að skreyta gjöfina.
 
 
 
 
 
 
 

28.6.13

Þakkarkort og játning bloggara!

 


Í maí fórum við að heimsækja vini og ættingja í Þýskalandi. Við fengum gistingu á þremur stöðum og fengum alls staðar höfðinglegar móttökur, ljúffengan mat, afnot af þvottavél, skutl og ég veit ekki hvað og hvað. Við vildum senda örlítinn þakklætisvott fyrir alla fyrirhöfnina og þá urðu til þessi fínu kort sem að guttinn og ég gerðum í sameiningu.
 
Guttinn litaði fyrst þessar fínu myndir með þessum skemmtilegu litum og svo fékk hann að mála yfir með vatni.
 
 
Ég sá svo um að líma herlegheitin á litaðan pappír
 
 
og svo fylgdu servíettur með.
 
 
 
Yfir í allt annað í lokin...... ég var spurð af því á blogginu hér um daginn hvernig ég færi af því að hafa forstofuna mína svona fína og ég svara því hér með:
Forstofan mín er sjaldnast jafn fín og á myndunum!
Ég hef hins vegar gaman að því að gera hana fína og setja upp myndir og dúllerí, það er hvatning til þess að reyna að halda henni þokkalegri.
 
 
Þegar þessi mynd var tekin tók ég dót sem beið eftir ferð niður í kjallara af kommóðunni og fækkaði yfirhöfnunum og gætti þess líka að ekki sæist í flísarnar sem mér finnst ljótar á litinn
 
 
Ég smellti þessari mynd af þegar ég var að taka servíettumyndirnar og hún sýnir forstofuna í öllu hversdagslegra formi. Þó mér finnist gaman að taka myndir af heimilinu mínu og deila með ykkur er ykkur alveg óhætt að trúa því að þar er oft drasl :-)
 
 
 

16.6.13

Hæ, hó, jibbí, jei...


 
....og jibbí og jei, það er kominn 17.júní!
Smá þjóðhátíðarinnblástur, álíka alíslenskur og textabrotið hér á undan.
 
 
Ég gerði litla fánalengju með skrautlímböndum, bæði plast- og hríspappírslímböndum (washi tape).
 
Afar einfalt og nokkuð fljótlegt.
 
 
Gömlu krúttarastígvélin urðu líka að vera með, það er fátt íslenskara en rigning á á þjóðhátíðardaginn!
 
 
og svo litli bíbíinn fuglinn
 
 
 
Maður gæti jafnvel skellt í skyrköku og skreytt hana í þessum anda (auðvitað með íslenska fánann sem fyrirmynd!)
 

 
 
Gleðilega þjóðhátíð!
 
 
 
 

6.6.13

forstofan í sumar

 
 
Það var kominn tími á að fríska upp á forstofuna, bara aðeins endurraða aðeins dúlleríinu :-)
 
 
Ég smellti skrapp pappír í botninn á bakkanum, fannst hvíti bakkinn á hvítu kommóðunni vera aðeins OF hvítt!
 
 
Bakkann spreyjaði ég sjálf, málaði fyrst svart undir, spreyjaði svo og pússaði kantana með sandpappír
 
 
Það var líka kominn tími á nýjar myndir í hvítu rammana, enda dálítið langt liðið frá páskum!
 
 
Einhvern tímann hef ég vistað þetta á tölvunni minni, veit því miður ekki hvaðan. Klippti þetta til svo að passaði vel í rammann og auðvitað skrapp pappír á bakvið.
 
 
Hornið í forstofunni lítur þá svona út:
 
 
Notalegt, ekki satt?