28.2.13

Uglulímmiðar og nostalgía

 
Enn og aftur fáið þið að kíkja á herbergi litla guttans. Annar helmingurinn er þakinn IVAR hillusamstæðu, efri hlutinn er fyrir allskonar ýmislegt frá okkur foreldrunum en neðri hlutinn er fyrir litla guttann.
 
 
Það er þétt raðað í efri hluta hillurnar eins og glittir í á þessari mynd og þess vegna áttum við ekki nóg af hillubrettum fyrir neðri hlutann. Því er hluti hillurnar með svona stóru "gati" en það kemur ekki að sök, litla guttanum finnst mikið sport að tylla sér þarna og glugga í bók.
 
 
Um daginn bættust uglulímmiðarnir svo við og vöktu mikla lukku, eitt af uppáhalds lögunum okkar er nefnilega um uglu sem að segir ú ú, ú!
 
 
Hérna fá kort með myndum af frændsystkinum að njóta sín

 
Svo verð ég bara að sýna ykkur þessa gersemi, gömul Fisher Price spiladós. Ég hafði pakkað henni niður með dúkkudótinu mínu, enda nauðsynlegt fyrir góða dúkkumömmur að hafa spiladós við höndina fyrir börnin. Hún var alveg heil en núna sér á henni eftir flugferð í boði litla guttans.

 
Sé rýnt vel í textann má lesa að spilaverkið var framleitt í Sviss en spiladósin sjálf í Bretlandi, í þá gömlu góðu daga...
 
 
Ég læt þetta duga af uglum og nostalgíu í bili!
 

 

 

23.2.13

Myndaveggur

Eins og öðrum litlum börnum finnst guttanum mínum skemmtilegast að skoða myndir af sjálfum sér. Það er oft svo notalegt hjá okkur að setjast niður saman og skoða myndirnar á heimasíðunni hans. Næst skemmtilegast er að skoða myndir af fólkinu sínu, M&P, ömmum og öfum, frændum og frænkum.
Því fannst mér tilvalið að skella nokkrum myndum af litla manninum með fólkinu sem að stendur honum næst á vegginn fyrir ofan rúmið hans.
 

 
Af því að þetta er fyrir ofan rúmið fannst mér rammar ekki henta en ákvað að prófa Washi teip og finnst það koma ágætlega út. Ég er svona sæmilega ángæð með límböndin, finnst þessi mynstruðu ekkert sérstök en það var lítið til að límböndum í þessum litum, en mikið úrval af allskonar blóma bleikum dúllulímböndum!
 
 
Þetta er ekkert sem að heldur að eilífu og guttinn er þegar byrjaður að toga aðeins í og rífa myndirnar en það er allt í lagi, þá er hægt að skipta myndum út. En hann elskar þennan myndavegg, bendir á myndirnar og ég á að segja hverjir eru með honum á myndinni.
 
Smátt og smátt er að koma eitthvað á veggina hjá litla manninum og herbergið hans að verða hlýlegra.
 
Fyrir nokkrum vikum:
 
 
Núna:
 
 
Allt í áttina...

21.2.13

Washi wahnsinn

 
 
...væri sennilega í alíslenskri þýðingu "japanskt límbandaæði".
 
 
En litrík og mynstruð límbönd eru til flestra hluta nýtileg:
 
 
eins og að láta eitt lítið gult tré vaxa á vegginn hjá sér
 
 
eða bara heilt fjölskyldutré!

 
eða færa stórbrotna og aðeins stílfærða íslenska náttúru inn í stofu hjá sér
(mynd af mjög skemmtilegu og fallegu ljósmyndabloggi; Augnablik)
 
 
 
 
 
 
fánalengjur
 

niðursuðudós skreytt á núll níu!
 
 
flikkað upp á plastglösin í veislunni
 

þetta er ein flottasta washi teip hugmyndin sem að ég hef séð!
 
 
eða þessi snilld, það þarf ekki að ryksuga þessa "mottu" og ekkert mál að breyta henni ef að þarf.
 
 
sígilt og stendur alltaf fyrir sínu
 
Ef þið eruð farin að huga að páskunum þá gætu þetta verið hugmyndir fyrir ykkur:
 
 

 
 
Allir þessir föndrarar virðast eiga úrval af þessum fallegu límböndum og þá er hægt að geyma þau svona á einföldu herðatréi
 
 
 
 
 
eða nota eldhúsrúllustand
 
Ég hef enn sem komið er enga þörf fyrir svona flottar geymslulausnir, ég á bara nokkur washi teip úr Sösterne og hef líka stundum séð þau til sölu í Tiger.
 
Hvar kaupið þið flott washi teip?
 
Ég væri alveg til í að byrja safna :-)
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

17.2.13

Skógardýr í myndaramma

 
 
 
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að skógardýr; bambar og uglur eru móðins,
 enda voðalega sætt og vinalegt.
Núna þegar ég er búin að eignast svona ofurkrúttlega stimpla varð ég náttúrulega að nota þá fyrir ofurkrúttið hann Berg Frey.
 
 
Hann fékk því svona skógardýra ramma með bæn

 
Ég var eitthvað að vandræðast með pappír en datt svo hið augljósa í hug, að búa til mynstraðan pappír með einum af stimplunum, hann hentað fullkomlega!
 
 
:-)
 
 
 


4.2.13

Slóð fiðrildanna

 
 
 
 
Það er kominn tími til þess að gera herbergi litla mannsins vistlegra. Við vorum búin að útbúa mjög notalegt horn fyrir hann í svefnherberginu hjá okkur en í sumar flutti hann yfir í barnaherbergið og ég var bara ekkert búin að gefa mér tíma til þess að dúlla aðeins við það. En nú skal úr því bætt!
 
 
Hornið hans í svefnherberginu okkar
 
Ég hef lengi hugsað mér að setja fiðrildi á vegginn en eftir að ég sá svona nýlega bæði hjá Dossu og MaS systurum ákvað ég að drífa í þessu.
 
Ég kíkti líka aðeins á Pinterest til þess að fá aðeins meiri innblástur og ákvað að ég vildi hafa fiðrildin misstór og mislit (en ekki misheppnuð!).
 
Þannig að ég notaði ekki fiðrildagatarann minn góða heldur fann fiðrildamyndir á Pinterest, notaði þær sem skapalón og klippti út heilan helling af fiðrildum.
 
 
Ég notaði sama pappír og ég notaði í rammann hans
 
 
og á stafinn hans
 
 
Þetta er "fyrir" myndin
 
 
Mikið af auðu veggplássi
 
Þá er það "eftir" myndin
 
 
Falleg og litrík fiðrildaslóð komin á vegginn
 
 
Ég átti nokkur afgangsfiðrildi og setti þau fyrir ofan hurðina á hinum enda herbergisins
 
 
Fara vel saman, ramminn og fiðrildaslóðin
 
 

Mikilvægast af öllu eru auðvitað að litla guttanum líst vel á, hann bendir á veggina og segir "mah!" með bæði undrun og velþóknun :-)
 
 
 
 

 
 
 
 
 
 

3.2.13

Glasapælingar

Fór í hádegishitting til góðrar vinkonu og fékk að sötra sódavatn úr
fínu nýju Iittala Lempi glösunum hennar.
Svo ótrúlega sniðug og smart glös sem eru ætluð fyrir næstum allt; vatnið, gosið, vínið og bjórinn. Ekki spillir fyrir að það er hægt að stafla þeim og þau fást í nokkrum litum.
 

 

 
.
 
Ég hafði einmitt verið að skoða svipuð glös nokkrum dögum áður, tja, bara í öðrum verð -og gæðaflokki! Þau fást reyndar í mismunandi stærðum en ég myndi vilja bara eina stærð og nota það sem svona alt-muligt-glas. Þessar tvær tegundir höfða sterkt til mín, smá rómantík í þeim:
 
 
France, fallegt!
 
 
Ana, sérlega fallegt!
 
Auðvitað er líka hægt að fá svona snilldarglös í IKEA
 
 
Barsk er einmitt líka hægt að stafla eins og Iittala Lempi glösunum.
 
Mig vantar reyndar ekkert glös, á fullt af fallegum vínglösum úr Blaclocka línunni frá Dúka og finnst þau undurfögur. Ég verð að sýna ykkur betri mynd af þeim við tækifæri.
 
 
Ég er líka búin að finna hvaða hversdagsglös henta mér og mínum best (og er að losa mig smátt og smátt við gamla blandaða samtíninginn). Mér finnst þessi bara svo sígild, þægileg og mátuleg eitthvað í eldhúsið.
 
Duralex Picardie
Við eigum minnstu glösin fyrir litla guttann og svo "venjulegu" stærðina.
 
 
Hérna fengu þau að njóta sín síðast liðið sumar
 
Maðurinn minn vildi líka fá þessa stærð, tekur hálfan lítra, svona sjónvarpsvæn stærð.
 
Meira var það ekki af glösum í bili ;-)