29.1.13

Barnamatskrukkur með blúndu

 
Ég er alltaf að verða ánægðari og ánægðari með blúndukrukkunar sem að ég gerði síðasta sumar.
Hef notað þær meira en ég bjóst við.
 
 
Fékk þennan fallega kökudisk með glerkúpli frá tengdó í jólagjöf og er mjög ánægð með hann.

 
Annars hefur nú ekki mikið bæst í safnið af bráðnauðsynlegum óþarfa undanfarið, en það er meira en í góðu lagi, maður er hvort eð er oft að nota sama fína dótið eins og sjá má á eftirfarandi (áður birtum) myndum.
 
 
  Hérna má sjá blúndukrukkurnar á svölunum í sumar
 
Í hillunni í haust
 

Keimlíkt en samt ekki eins...
 
 
 
 
 

21.1.13

Vetur á stigaganginum

 
Kominn tími til að sýna ykkur stigagagninn hjá mér enn einu sinni, en með dálitlu glænýju í þetta sinn!
 
 
Garðstóllinn góði er farinn í vetrarfrí en í hans stað er kominn þessi flotti sleði. Þessi er sko alvöru, maðurinn minn átti hann þegar að hann var strákur. En þar sem litli guttinn minn er enn of lítill fyrir svona eðalgræju fæ ég bara að nota hann upp á punt!
 
 
splæsti loksins í þessa Ikea lugt á útsölunni, er búinn að dást að henni síðan í haust
 
 
Fékk lánaðan þennan mjólkurbrúsa frá mömmu,
hún á nóg af svona gömlu góssi og ég nýt góðs af því


 
 Vettlingar sem að eru enn of stórir á litla guttann en liturinn fer vel við lugtina
(auðvitað prjónaði mamma mín þessa fínu vettlinga)
 

 
Síðast en ekki síst þessi yndislegu barnastígvél, af einhverju okkar systkinanna, einnig góss frá mömmu (allt í lagi mamma, þessi færsla er hér með tileinkuð þér!)
Ætli þau séu ekki á fertugsaldrinum þessi, gúmmíið er orðið grjóthart. Litli guttinn minn skilur ekkert í því, honum finnst svo gaman að fara sjálfur í stígvél og skilur ekkert í því hvað þessi stígvél eru stíf og leiðinleg, svo ekki sé minnst á hvað mamma hans verður leiðinleg, hann ætlar jú bara rétt að máta þessi fínu stígvél....
 
 
Það er allavegana óhætt að segja að það sé viðeigandi vetrarstemning á stigaganginum á þorra
 
 
 

18.1.13

Öll dýrin í skóginum í afmæli

 
Guðsonur minn átti 4 ára afmæli og þar sem foreldrar hans og hann eru nýflutt og ekki búin að koma sér almennilega fyrir fékk ég að vera gestgjafinn. Mig langaði til þess að gera svolítið fínt fyrir hann og byrjaði á að skella veifunum úr afmæli litla guttans míns upp.
 
 
Ótrúlega löng veifulengja sem dugði yfir alla stofuna og loksins komu ekki -svo-fallegu- stofuljósin mín að góðum notum.
 
Veifur í stofunni, blöðrur á stigaganginn... mig langaði til þess að bæta einhverju smááá við....
 
 
 
svona eins og einum skógi og íbúum hans í eldhúskrókinn!
 
Afmælisbarnið er mjög hrifið af Dýrunum í Hálsaskógi og því fannst mér tilvalið að bjóða Mikka ref og hinum skógardýrunum í afmælið.
 
Með aðstoð Ellinée
Woodland Birthday Party Printables
 
og prentarans míns spruttu Hálsaskógur og íbúar hans upp.
 
 
Mikki refur
 
 
hmm, var engin kanína í Hálsaskógi?
 
 
Litli bangsastrákurinn sem átti að selja í sirkus
og svo var líka ugla sem að sést hérna á afmæliskökunni (muniði, hún reyndi að borða ömmu mús!)
 
 
Í settinu er líka skraut til þess að setja utan um bollakökur (eða möffins eða múffur eða hvað sem þið kallið það!) og það vildi svo heppilega til að það passaði fullkomlega utan um ljósin á ljósakrónunni.
Það sést vel á þessari mynd.
 
 
Mér fannst ljósakrónan þola meira skógarfjör þannig að ég náði í fiðrildamynsturgatarann minn góða og smellti í nokkur fiðrildi (ég notaði pappír úr settinu og svo fann ég þennan bláa hér, prentað báðu megin á blaðið)
 
 
 
 
 
 
 
Síðast en ekki síst kom skógur á vegginn við borðsendann og svo flögruðu fiðrildi um allt eldhúsið
 
 
Þessi hagnýta en ljóta innstunga er við borðsendann. Ég hef oft pirrað mig á henni en ég held að það hafi bara verið ágætislausn að setja bangsa litla þarna, eins og hann sé inni í helli.
 
 
Afmælisbarnið var ánægt með skógarafmælið og litli guttinn minn þreyttist seint á því að dást að veifunum og skógardýrunum við matarborðið.
 
 

12.1.13

Forstofan í janúar

 
Jólaskrautið komið ofan í kassa og þá er að draga upp eitthvað annað fínerí. Ég ákvað að hafa lavender- þema í forstofunni þó það sé nú kannski ekkert sérstaklega vetrarlegt.
 
 
 
 
 
 
Hérna eru nýju rammarnir í forstofunni sem að ég var ekki búinn að sýna ykkur. Í svörtu römmunum eru myndir af guttanum mínum og ég skipti um myndir í hvítu römmunum eftir árstíðum. Lavender myndirnar fann ég á netinu hér og hér (vel þess virði að kíkja á þessar síður ef þið þekkið þær ekki nú þegar!)
 
 
 
 
Lavendar er afar fallegur og ilmar svo vel. Ég smellti nokkrum dropum af ilmolíu, ég veit að þið finnið ilminn líka svona rafrænt.
 
 
 
 

7.1.13

Afmæliskort og nafnaveifur

 
Fyrir nokkrum mánuðum fékk 5 ára gormur nafnaveifur í afmælisgjöf. Við það tækifæri óskaði bróðir hans eftir að fá alveg eins þegar hann ætti afmæli. Um helgina var komið að því að efna loforðið og ég settist niður (á síðustu stundu eins og vera ber) og gerði nafnaveifur fyrir afmælisbarnið!
 
 
Fyrst er að skera úr veifurnar

 
prenta úr og líma stafina á hverja veifu

 
líma allt á grófa snúru
 
 
og tadaaaa, þá eru komnar þessar fínu nafnaveifur eða "garland".
(afsakið myndgæðin, ég steingleymdi að taka mynd, þessi er tekin á síma í afmælinu)
 
 
 
 
það varð auðvitað að vera kort í stíl
(og ég varð að vígja nýju ómótstæðilegu skógardýra stimplana mína!)


 
svona var kortið innan í, uppskrift af "boosti" sem að afmælisbarnið biður alltaf um þegar hann kemur í heimsókn til mín. Síðast þegar hann kom notaði hann þetta flotta orð "morgunverðardrykkur" ég varð auðvitað að skrifa það! 
 
 
Þannig var nú það :-)

4.1.13

Á nýju ári....

...er við hæfi að byrja á því að óska gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samfylgdina á því gamla. Takk fyrir að gefa ykkur tíma til þess að líta hingað inn og sérstakar þakkir fyrir allar fallegu athugasemdirnar.

Í gær tók ég myndir af jólaskrautinu þetta árið (mjöööög tímanlega) og þar sem ég ætla að taka það niður á morgun ætla ég ekkert að sýna ykkur myndir af því heldur af tveimur ofur litlum en sérlega praktískum lausnum.

Sú fyrri er fyrir baðleikföng litla guttans, en þau voru orðin heldur fyrirferðarmikil fyrir minn smekk.

 
Uppröðuð á baðkarsbrúninni svo að þau næðu að þorna og líka í hrúgu ofan í baðkarinu.......

 
Öll leikföngin saman komin í netaþvottapoka, fyrirferðalítið, fljótlegt og nær að þorna vel!
 
 
Seinni lausnin er úr smiðju klára eiginmannsins míns.
Við gáfum ömmum&öfum svona fín dagatöl með myndum af litla guttanum í jólagjöf, og létum auðvitað gera eitt fyrir okkur líka því að svona litlir guttar vita fátt skemmtilegra en að skoða myndir af sjálfum sér.
 
 
Svo þurfti að finna veggpláss fyrir dagatalið og maðurinn minn stakk upp á þessum "vegg" í eldhúsinu. Ég sá fyrir mér að hann vildi negla í innréttinguna (okkur langar í nýja innréttingu, en kannski of langt gengið að skemma hana vísvitandi með naglaförum) en hann var með létta lausn á þessu:

 
Nagla og nælonþráð í dagatalið

 
sem að er svo fest með öðrum nagla ofan á innréttingunni.
Snjallt, ekki satt?