3.12.13

Óður til lífsins

Mig langar til þess að deila þessum flottu styrktartónleikum með ykkur. Undanfarin ár hef ég verið svo heppin að syngja með Reykjalundarkórnum en hann var stofnaður árið 1986 og er þetta því 28. starfsár kórsins.
Haustið 2013 var sú staða komin upp að ekki var nægjanlegur fjöldi til þess að halda starfsemi kórsins áfram. Ákveðið var að leggja kórinn niður með glæsibrag og blása til stórra styrktartónleika fyrir Reykjalund sem hefur í gegnum árin sýnt kórnum mikinn velvilja og stuðning.
Haft var samband við eldri kórfélaga og tóku þeir vel í að ljúka þessu með okkur og erum við nú um 50 félagar sem syngjum á þessum tónleikum. Á tónleikunum koma einnig fram margir góðir gestir; Álafosskórinn, Karlakórinn Stefnir, Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og síðast en ekki síst Páll Rósinkranz söngvari. Gaman er að segja frá því að Birgir D. Sveinsson kynnir en hann er bróðir Lárusar Sveinssonar, fyrsta stjórnanda kórsins.   
Eins og allir vita eru litlar fjárveitingar til heilbrigðisstofnana í dag og alls staðar vantar tæki og tól.  Allur ágóði af þessum tónleikum rennur því óskiptur til Reykjalundar til tækjakaupa.
 

Mætum öll létt í lund og látum sönginn efla Reykjalund!

p.s. ég verð að monta mig, Sigurborg systir hannaði þessa flottu auglýsingu fyrir okkur, mér finnst hún æði!
 

9.11.13

Súkkulaðimarengs með rjómaostakremi

 

Engar áhyggjur, Rósir og rjómi eru ekkert að fara breytast í uppskriftablogg- en ég bara verð að nýta mér rjóma hlutann af nafninu og deila með ykkur þessari uppskrift.
 
Ég smellti í þessa kvöldið fyrir afmælisdaginn minn um daginn  og kippti með í vinnuna og hún sló í gegn. Ég var svo agalega montin af því að kaka sem að ég bakaði væri svona góð að ég verð að monta mig af henni hér!

Ég reyndar skil ekki núna að maður baki ekki bara alltaf súkkulaðimarengs, það er hin fullkomna blanda í mínum augum. Ekki spillir fyrir að rjómaostakremið er mjög líkt því sem er í uppáhalds ostakökunni minni. Þessi kaka er því fullkomin fyrir mína bragðlauka.
 
Fyrst ber að geta þess að ég studdist við þessa uppskrift hérna og þar má finna mjög ítarlegar leiðbeiningar. Ég breytti kökunni svolítið eftir mínu höfði.
 
Súkkulaðimarengs
50 gr brætt súkkulaði
6 stórar eggjahvítur
3 msk kakó
1 tsk rauðvínsedik
1 dl kornflögur
 
Þeytið eggjahvítur og sykur saman, bætið svo kakóinu og edikinu við. Að lokum er bráðið súkkulaðið og kornflögurnar hrært varlega saman við. Bakist við 125 gráður í 60-75 mínútur.
 
Rjómaostakrem
 
250 gr rjómaostur
2 msk sykur
1 msk vanillusykur
1 tsk vanilludropar eða enn betra möluð vanilla (t.d. frá Rapunzel)
0,5 l rjómi
 
Hrærið saman rjómaost og sykur, bætið vanillunni við og þeytið svo rjómann smátt og smátt saman við.
 
Nú er að setja dýrðina saman:
 
 
Fyrst annar marengsbotninn og svo helminurinn af kreminu.
Ég valdi að hafa salthnetur á milli, salt er svo ljúffengt mótvægi við sætt og gott að hafa stökkar salthnetur
 
 
Svo hinn botninn og restin af kreminu.
 
Svo mæli ég með því að þið geymið kökuna í kæli eða enn betra, í frysti. Takið kökuna svo úr frysti ca. 2 tímum áður en hún er borinn fram og þá er hún enn hálf frosinn - það var sjúklega gott!
 
Kakan og kremið eru auðvitað mjög sæt og því fannst mér tilvalið að setja hindber ofan á, ekki spillir fyrir hvað þau eru falleg! Ég notaði 250gr af hindberjum (keypti þau frosinn og lét þau þiðna áður en ég skellti þeim á kökuna rétt áður en ég bara hana fram).
 
 
Njótið!
 
 
 
 
 

4.11.13

Jóladagatal úr eldspýtustokkum


Áfram halda jólafærslurnar! Mér datt í hug að þið hefðuð gaman af jóladagatalinu sem ég gerði fyrir vinafólk okkar árið 2010. Mér hefur nú farið svolítið fram í föndrinu síðan þá en hugmyndin stendur enn fyrir sínu þó ég myndi sennilega velja annan pappír og skreyta það öðruvísi núna.

 
Maður þarf 24 eldspýtustokka, breiðari gerðin hentar betur. Ég notaði perlur og pinna eins og maður notar í eyrnalokka til þess að gera haldföngin.
 
 
Á þessari mynd sést betur hvernig dagatalið er sett saman.
 
 
Ég málaði skúffurnar rauðar að innan og klæddi með pappír
 
 
Í hverri skúffu var svo að finna spakmæli, eitt fyrir hvern dag aðventunnar.
 
Ef að þið hafið áhuga á jóladagatölum þá má finna fleiri hugmyndir hér.
 
 
 
 


2.11.13

Jólakortin 2012


Núna bætist ég í hóp þeirra sem skrifa um blessuð jólin sem bráðum koma! En það borgar sig að vera tímanlega ef maður vill föndra jólakortin sín sjálfur og mér datt í hug að sýna ykkur jólakortin frá því í fyrra (sjáið til, ég gerði þau auðvitað á síðustu stundu í fyrra og hafði engan tíma til þess að sýna ykkur þau kortér í jól, en það kemur sér vel í ár að eiga efni í handraðanum!)
 
 
Þegar maður föndrar nokkra tugi korta er lykilatriði að hafa þau einföld og einföld kort eru jú mín sérgrein!
 

Ég prentaði út þessa fínu mynd af litla guttanum,
 
 
skar út "mottur" undir myndirnar, nokkrum millimetrum stærri en myndin sjálf
 
 
og notaði svo hluta af jólapappírnum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina í einfalda renninga
 
 
Að lokum smellti ég í lítinn jólastimpil í hornið á kortinu, það gerði gæfumuninn
 
 
Kortin urðu skemmtilega fjölbreytt þrátt fyrir einfaldleikann
 
 
Þið verðið að afsaka myndgæðin, myndirnar voru að sjálfsögðu teknar á síðustu stundu, rétt mundi eftir því áður en ég lokaði umslögunum!
 
 
Ég þarf svo að leggja höfuðið í bleyti fyrir jólakort þessa árs.....
 
 
 
 

 
 

13.10.13

Karlakort

Flestir sem fikta við að föndra kort eru sammála um að kortin fyrir karlana eru oftast erfiðust, manni finnst ekki hægt að setja fiðrildi, blúndur og glimmer í miklum mæli á þau.
Um daginn gerði ég þetta kort fyrir sextugan ská-tengdapabba minn og fannst það bara heppnast nokkuð vel. Liturinn sérvalinn fyrir hann.
 
 
Stolt sýndi ég eiginmanninum kortið sem ansaði: "Uh, Detlef gengur aldrei með bindi, hann þolir ekki bindi!" Úpps! En kortið var tilbúið og stimplað með nafninu hans svo að maðurinn sem þolir ekki bindi fékk bindiskort í afmælisgjöf!
Ég verð að standa mig betur á næsta ári...
 
Fyrir áhugasama (ef þið þekkið karlmenn sem ganga með bindi) þá studdist ég við þessar leiðbeiningar :-)

12.10.13

Óþarfaþráin

Ég segi fólki gjarna að mig vanti ekki neitt og það er alveg rétt, ég er svo heppinn að eiga nóg af flestu og sérstaklega því sem mestu máli skiptir og fæst ekki keypt fyrir neina peninga.
 
Þrátt fyrir að vera svona heppinn ætla ég að deila með ykkur óþarfaþránni minni, hvað fallegu og misnytsamlegu hluti og óþarfa ég gæti hugsað mér að splæsa í þessa dagana!
 


Mig langar mikið í fína myndavél, ég á eina nýlega og fína en mig langar mikið í svona gæðagrip - þó að ég kunni ekkert á hana, þá fær maður frábærar myndir með því að nota bara "Auto" stillinguna!
 
Það eru margir fallegir hlutir fyrir heimilið á óskalistanum eins og:
 
 
Ittaala Mariskooli skálar
 
 
Fallegur kökudiskur og kanna úr Mynte línunni frá Ib Laursen

 
 

 
 
 
 
Svona fínar og fallegar vekjaraklukkur á náttborðið 
 
 
 
 
 
 
 
Ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af vörunum frá Sveinbjörgu
 
 

 
 Eins og þessum æðislegu garðveislubökkum, ég sé í hendi mér marga staði á heimilinu þar sem þeir myndu njóta sín! 
 
 
 
Eða þessu notalega ullarteppi (maður myndi hugsa sig tvisvar um að nasla fyrir framan sjónvarpið með svona fínt teppi!)
 
Það er líka nóg af fallegri íslenski hönnun sem ég gæti hugsað mér að skreyta mig með eins og hálsmen frá Hlín Reykdal 
 
Eða klútur frá AndreA boutiqe
 
 
nú eða armband frá Sif Jakobs
 
 
Ég læt þetta duga af óþarfaþrá í bili og vona að ég sé ekki búin að smita ykkur!
 
 
 
 
 
 
 
 

22.9.13

Haust á stigaganginum og örlítið föndur

 
Nú er haustið komið, mér finnst það ótrúlega notaleg árstíð. Ég kaupi Beitilyng (Erikur, Callunur) á hverju ári til þess að skreyta stigaganginn.
Í ár dreif ég mig loksins í að gera svolítið sem hefur lengi staðið til:
 
 
Ég nældi í þennan fína ávaxtakassa og gerði hann gráleitan með edik- og stálullarblöndu.
 
 
Viðurinn fær fallega gráan lit og þetta var lítið mál; leggja stálull í edik í nokkra klukkutíma (ekki reyna að útskýra fyrir manninum ykkar hvað þið eruð að gera!), pensla yfir viðinn og sýna smá þolinmæði, þá kemur gráminn í ljós.
 
 
Ég prentaði þessi "gömlu" skjöl út og límdi í botninn
 
 
Skjölin fann ég auðvitað hér.
 
 
 
 
 

1.9.13

Kortaáskorun

 
Hún Aneta kortasnillingur var með kortaáskorun fyrir okkur í Skrapphópnum á Fésbókinni. Útlitið var frjálst en við urðum að nota ákveðna litapallettu. Mér finnst svo frábært hjá henni að standa fyrir svona áskorun svo að ég tók auðvitað þátt.
 
 
Kortin hennar Anetu eru mjög ólík einföldu kortunum mínum; rosalega flott og mikil vinna og efni lögð í þau. Það kom mér því skemmtilega á óvart að ég skyldi vinna áskorunina! Svo ekki sé minnst á öll hin kortin sem voru send í áskorunina, hvert öðru fallegra og hugmyndaríkara.
 
Vinningurinn var ekki af verri endandum:
 
 
Núna verð ég bara að skella mér í að nota þetta fínerí.
Enn og aftur, takk fyrir Aneta!
 

6.8.13

Rautt, bleikt og grænt


Ég gerði þetta ótrúlega sniðuga og sæta kort (þó segi sjálf frá!) fyrir eins árs prinsessu um daginn. Snilldin felst í einfaldleikanum, fjórir ferningar skornir í tvennt, kantarnir rúnnaðir, límt á, tala í miðjuna og maður er kominn með fínasta kort. Ekki skemmir fyrir að kjörið er að nota pappírsafganga og leika sér með alls konar litasamsetningar.
 
Hugmyndin kemur að sjálfsögðu af Pinterest.
 
Litirnir í þessu korti voru valdir í stíl við afmælisgjöfina:
 
 
svo fann ég meira að segja spennur í stíl!
 
 
Kjóllinn er úr lífrænni bómull og spennurnar eru "Fair Trade". Ég er að æfa mig í að versla svona umhverfis- og mannúðarvænt og finnst frábært að það er alltaf að verða ofurlítið auðveldara að nálgast slíkar vörur.
 
 

5.8.13

Árbæjarsafnið


 
Árbæjarsafnið er uppáhalds safnið mitt. Ég fer alltaf þangað á hverju sumri, stundum reyndar oft!
Mér finnst gamlir hlutir bæði fallegir og hlýlegir. Sagan er svo heillandi og áhugaverð.
 
 
Sýningin "Komdu að leika" er í sérstöku uppáhaldi en þar mega börnin leika sér með allskonar gamalt góss, allt frá leggjum og skel til Nintendo tölvu.
 
 
Útisvæðið er ekki síðra en þar gleyma sér ungir og aldnir í kassabílarallýi og stultu metingi.
 
 
Þar eru líka rólur ( sem sjá má í bakgrunni þessarar myndar)
 
 
Einn sex ára snillingur spurði mig einu sinni hvort að þetta væri rólurnar sem Grýla drapst í!
(Afar rökrétt hugsun á safni sem er fullt af gömlum hlutum og allir vita líka að  "nú er hún gamla Grýla dauð gafst hún upp á rólunum"! )
 
Um daginn fórum við hjónin með litla guttann, hann var mjög spenntur fyrir öllu dótinu en ekki síður fyrir dýrunum.
 
 
Ég smellti af nokkrum myndum til þess að deila með ykkur
 
 
Rabbabaragarður og geymsla
 
 
Stórt birkitré hliðina á gömlu húsi

 
Gamlir hvítir gluggar með blúndugardínum og blómum
 

Blanda af steinum og tré
 
 
Líka gaman að sjá hvað er hægt að finna margar litlar en fallegar uppstillingar
 
  
Hjá mörgum byrjar vinnan og rútínan aftur eftir verslunarmannahelgina en það er þó enn tími til þess að kíkja á þetta frábæra safn, ég mæli með því!