22.4.12

Kolla klaufi 08.08.06

Það er kominn tími til að ég haldi loforðið og segi ykkur hvernig Blönduóslöggan og týndir ferðalangar tengjast sumarfríinu mínu.... Ég er nú reyndar ekkert mjög stolt yfir tengslunum en þið getið vonandi skemmt ykkur yfir óförum mínum og lært af þeim, eða litið þetta sem leiðbeiningar ef ykkur langar að rata í vandræði.Glottandi
Tengsl mín við Blönduóslögguna urðu of náin fyrir minn smekk, já, þeir eiga meira að segja mynd- og hljóðupptöku af mér þar sem ég mótmæli ekki þeim sökum sem á mig eru bornar. Ég játa hér með að hafa ekið á 111 km hraða í umdæmi Blönduóslögreglunnar. Ég samþykki einnig að greiða uppsetta fjársekt. Þetta var nú eiginlega gott á mig, ég sem keyri alltaf hægar en amma mín og er alltaf með beltin spennt -telst það ekki til lækkunnar á sektinni!?!
Nokkrum dögum seinna hætti ég mér aftur út á þjóðvegi landsins (sem eru einir og sér efni í marga pistla) og í þetta sinn hafði fararskjótinn færri hestöfl undir húddinu. Þá kom ég (eða eiginlega Jens) mér/okkur í vandræði á tveimur jafnfljótum.
Við fórum í útilegu og tjölduðum rétt hjá Eldborg á Snæfellsnesinu. Eins og vill verða í útilegum sótti að okkur kuldi um kvöldið þannig að við ákváðum að fá okkur smá göngutúr fyrir svefninn. Við ákváðum að labba upp á Eldborgina, ekki nema 2 km! Við lögðum af stað um ellefuleytið og rákumst á skilti frá Náttúruvernd þar sem hamrað var á því að fylgja merktum gönguleiðum og alls ekki skemma viðkvæman gróðurinn. Við komum klakklaust upp á Eldborgina og nutum útsýnisins.
Á leiðinni til bara fór að halla á ógæfuhliðana því að við fundum ekki göngustíginn, hann var NB ekki stikaður eða merktur á neinn hátt, bara niðurtroðinn slóði. Við sáum samt bóndabæinn greinilega og Jens ákváð að stefna á hann, stígurinn hlyti að koma í ljós bakvið eitthvert kjarrið eða ofan í einhverri hraungjótunni. Eftir að hafa brotist í gegnum íslenskt kjarrlendi í dágóða stund stakk ég upp á að halda aftur að Eldborginni og reyna finna göngustíginn þar, hann hlyti jú að vera einhversstaðar í grenndinni. Þýska karlmennið vildi ekki heyra á slíkt minnst og dró mig áfram. Þegar myrkrið var skollið á og líkaminn farinn að kvarta undan öllu þessu príli varð Jens loksins að viðurkenna að við værum rammvillt í þessum íslenska skógarhraunlendi og ef að við héldum áfram á þessum hraða værum við kominn aftur á tjaldsvæðið annað kvöld.
Við settumst því niður, biðum eftir birtingu og blésum mæðinni. Svo brutum við okkur leið (þar fór þetta með að skemma ekki viðkvæman gróðurinn) aftur að Eldborginni. Og viti menn, eftir nokkra leit römbuðum við á göngustíginn! Það voru mjög mjög þreyttir en líka mjög mjög fegnir göngugarpar sem hrundu inn í tjaldið sitt rétt fyrir klukkan fjögur þessa nótt.
Af þessu má draga nokkurn lærdóm:
1. Merktar gönguleiðir þýðir niðurtroðinn slóði (nema það þýði ósýnilegar innrauðar merkingar...).
2. Ekki "skreppa" í kvöldgöngutúr án klukku, síma, vasaljóss eða láta einhvern vita.
3. Ef að þú heitir Jens þá hefur KOLLA ALLTAF RÉTT FYRIR SÉR! Engar undantekningar -þetta heitir kvenlegt innsæi.Koss
-Lifið heil!-

No comments:

Post a Comment