Já, sá dagur rann upp að við hjónakornin opnuðum heimabankann og hugsuðum: "jú, þetta ætti að duga fyrir ágætum bíl." Eftir að hafa skrifað niður hvaða eiginleikar voru mjög mikilvægir fyrir nýja bílinn og hverjir væru æskilegir hófst leit að góðu eintaki. Bílasérfræðingar fjölskyldunnar voru kallaðir til og margan eftirmiðdaginn hrelldum ég og Kjartan bílasala í Reykjavík í von um að finna gott eintak. Skemmst er frá því að segja að það gekk ekki þrautalaust fyrir sig, í alvörunni, nær allir bílarnir sem við skoðuðum voru með ömurlega smur- og þjónustubók. Þegar bílakaupsþolinmæðikvótinn minn var alveg að verða búinn kom í sölu hjá Toyota umboðinu bíll eins og við vorum búin að leita að og eftir prufuakstur og gaumgæfilega skoðun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri bíllinn. Tataaaa!

Það er ómögulegt að blogga um bílakaupin án þess að minnast á gamla eðalvagninn, Toyota Corolla xli 1300 (ójá, krafturinn!) árgerð 1996. Það var sannkallaður fjölskyldubíll; Inga fyrrverandi mágkona átti hann, svo mamma í 5 ár og svo ég í heil 6 ár! Það er bíll með karakter eins og bíl á hans aldri sæmir:

- Ekki skrúfa framrúðurnar niður-þær eiga það til að festast þar
- Mundu að kúpla vel áður en þú setur í bakkgír
- einn lykill að hurðinni (nýr, báðir lásarnir voru orðnir gatslitnir) og annar til að starta bílnum
- Rauður að framan og aftan, ljósbleikur á toppnum og hliðunum (enginn klesst á þá hluta bílsins og þeir því aldrei verið sprautaðir)
- Ekkert ljós í skottinu (það leiddi út, best að fjarlægja það) og bara hægt að opna skottið að innan (enn og aftur, slitinn lás)


Þannig að ef þið sjáið dökkgráa Corollu skutbíl á ferð um bæinn þar sem ökumaðurinn bremsar óþarflega harkalega (er að venjast ABS-hemlunum) eða brunar skælbrosandi upp Ártúnsbrekkuna á "vinstrustu" akrein (1600 vél er lúxus miðað við 1300 vél!) þá er það sennilega ég

No comments:
Post a Comment