22.4.12

Af innanlandsflugi, krúttum og englun 17.10.11

Ég og krúttmúsin skruppum til Akureyrar um helgina og flugum báðar leiðir.
Á leiðinni norður var svolítil ókyrrð áður en við lentum og maður bæði fann og sá hvernig margir farþeganna stífnuðu og stressuðust. Þá varð mér hugsað til þess þegar ég flaug einu sinni til Egilsstaða og það var lítil stelpa í vélinni sem að hló svo hjartanlega í hvert skipti sem flugvélin hoppaði að eftir smástund voru nær allir í vélinni skælbrosandi og enginn stressaður yfir smá ókyrrð.
Á leiðinni heim svaf krúttmúsin mín vært í stólnum sínum og í sætaröðinni við hliðin á okkur var annað krútt, 5 ára sem að fannst ekkert mál að fara einn í flugvél. Hann var greinilega alvanur og kippti sér ekkert upp við það að flugfreyjan gat ekki sinnt honum strax, spurði mig bara hvar sæti númer fjörtíu væri, en hann var í sæti 14 D Svo bað hann mig um að spenna á sig beltið og vissi sko vel að það þyrfti að herða vel- fylgdist meira að segja vel með því að ég gerði þetta rétt þegar að ég spennti mig! Þegar við vorum svo komin í loftið og hætt að sjá landið fyrir skýjum spurði hann mig hvort að ég sæi einhverja engla í skýjunum. Ég leit út um gluggann og sagðist nú ekki sjá neina í augnablikinu. Þá svaraði hann spekingslega að hann hefði sko heyrt að þeir væru ósýnilegir og þess vegna sæi ég þá ekki!
Finnst ykkur ekki að það ætti að vera einn flugþjónn og svo eitt svona krútt í öllum innanlandsflugum?

No comments:

Post a Comment