22.12.12

Jólagjafaóskalistinn

Kortér í jól, ég er loksins búin að skreyta og senda jólakortin þannig að ég ákvað að leyfa mér að setjast niður og birta hérna inn lista af fallegum hlutum sem að ég væri til í að eiga eða gefa litla prakkaranum mínum. Þetta er allt í flokknum "bráðnauðsynlegur óþarfi", ég þarf auðvitað ekkert á þessu að halda og óska mér og öllum hinum auðvitað allra helst ástar, friðar og kærleika á jólunum.
 
En þá að bráðfallega óþarfanum!

 
fallegir hlutir eins og kökudiskar og glerkúplar, ahhhh
 
 
eða svona skilti, ég á bara eitt, það er alveg pláss fyrir fleiri!
 eða þessar dásemdarvörur frá Ib Laursen, ó mig langar í!

 
Núna veit ég að þið eruð orðin veikar af óþarfaþrá eins og ég, þessar Nordal vörur, pjúff!Úr allt annarri átt en samt líkar mér Kastahelmi línan frá Ittala
 

 
Ég gæti líka alveg hugsað mér að setja svona fallegt skartgripatré á náttborðið eða spóka mig með svona dásamlegt hálsmen.
 
Af því að ég á lítinn eins og hálfs árs prakkara eyði ég sennilega meiri tíma í að skoða fallega hluti handa honum en handa mér eins og þetta:
 
 
Wheely Bug sem að fást núna aftur hérna á klakanum

 
í sömu verslun fást líka þessir ó svo fallegu vegglímmiðar, já takk! 
og þessi hriiiiiikalega sætu og skemmtilegu dýr. Ég dregst venjulega að tréleikföngum og þessi eru í algjöru uppáhaldi núna, ég er alltaf að reyna láta mér detta í hug afsökun svo að ég geti farið og keypt fleiri, haha! (fást  líka í Barnasmiðjunni á betra verði!)

Ég eins og allir hinir er meira en lítið skotin í gömlu Fisher Price leikföngunum sem að eru nú endurframleidd, mig langar í þessa spiladós því að hún var til heima hjá mér!
 yndislegar, ljúfar og skemmtilegar barnabækur, ég á erfiðara með að standast þær ern allt ofantalið, þetta er lítið sýnishorn af því sem að ég gæti hugsað mér að bæta við safnið!


9.12.12

Jól á stigaganginum

Þá er ég loksins byrjuð að dreifa jólunum hér um íbúðina en í dag ætla ég að sýna ykkur hvað ég hef gert fyrir utan íbúðina, á stigaganginum.
Mér finnst svo notalegt að hafa smá skraut og dúllerí þar til þess að bjóða fólk velkomið (því að stigagangar í fjölbýlishúsum eru sjaldnast mikið augnayndi!).
 
Í fyrra var stemningin nokkuð hefðbundin:
 
 
Jóladyramotta og krans með rauðum berjum, könglum og greni
 
 
og rautt jóladúllerí, jólaepli og sænsk ættaðir geithafrar
 
Í ár var þetta hrikalega krúttlega jólatré af jólamarkaðnum við Elliðavatn byrjunin að jóladúlleríinu
 
 
Svona lítil tröpputré (og líka enn minni og krúttlegri) fást á markaðnum, margar tegundir af grenitrjám, til styrktar skógræktarfélagi Reykjavíkur
 
 
tröpputréð er í aðalhlutverki í ár
 
 
og aukaleikarar eru fallegt skraut
 
eins og vírkarfan góða, núna fyllt með eplum og könglum
 
 
Ég lenti í smá vandræðum með hurðakransinn, því að mér fannst þessi rauði sígildi bara alls ekki passa við...
 
 
Sem betur fer datt ég niður á þennan krans fyrir 500 kall
 
 
með smá búti af grænum borða, snjókorni og litlum fugli er hann orðinn að fyrirtaks hurðakransi
 
 
ein mynd af heildinni
 
Mér fannst gaman að breyta svolítið til og hafa engan rauðan lit í ár á stigaganginum (handriðið er alveg nóg!). En það er sko nóg af rauðu í íbúðinni, vonandi koma myndir af því fljótlega!

 
 
 


2.12.12

Rósir og rjómi á aðventunni

 
mynd héðan
 
Það er löngu kominn tími á nokkrar línur um nýja útlitið á blogginu mínu og ekki má gleyma nýja nafninu!
 
 
mynd héðan
 
BulluKollu nafnið fylgdi mér af Moggablogginu sem að ég var með (og byrjaði með árið 2006 þegar Silvía Nótt tók þátt í Evróvisjón, ójá.....). Ég bað elskulega systir mína að gera fyrir mig borða efst á síðuna sem að hún samþykkti tafarlaust.... svo lengi sem að ég breytti nafninu! Hugmyndaríka hún átti auðvitað líka hugmyndina af þessu fína nafni sem að ég er afar ánægð með.
 
 
 
mynd héðan
 
Þannig að núna er ég komin með fínt nafn og fallegt útlit og því ekkert til fyrirstöðu að skella sér í smá aðventuskreytingar....sem að ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur!
 
 
mynd héðan
 

20.11.12

Jólamerkimiðar

Það er farið að síga á seinni hlutann í nóvember, þá má nú alveg koma smá jólatengt, er það ekki!?!
 
Ég rakst á þessa ofursætu merkimiða til þess að prenta út á vafri mínu um veraldarvefinn og datt í hug að þið gætuð líka haft gagn og gaman af þeim:
 
Printable Wooly Woodland Christmas Gift Tags
 
ó svo sæt skógardýr á sæta pakka
 
DIY Country Christmas Gift Tags
 
og þessir merkimiðar ekki síðri í afar fallegum jólalitum.
 
Þessar dásemdir (og maaaaaargt annað fallegt!) má finna hér, fríkeypis!
 

15.11.12

Jólakúla með handarfari

Einhvern tímann vistaði ég þessa fallegu mynd og flottu hugmynd hjá mér á tölvuna
 
 
Ég hef síðan séð þessa mynd víða og datt í hug að sýna ykkur mína útgáfu
 
 
Þetta er handarfarið af litla gorminum mínum fyrir jólin í fyrra, þá um fimm mánaða gömlum. Ég notaði jólaplastkúlur úr Ikea (þær brotna ekki auðveldlega) og svo bara akrýl málingu úr Sösterne. Barnið steinsofandi fékk málingu á hendina sem að foreldrarnir hjálpuðust að við að klína svo fallega á jólakúlu, sem að gekk misvel, en sumar heppnuðust fullkomlega eins og þessi á myndinni.
 
Málingin er nokkuð fljót að þorna og því þarf maður að vera frekar snöggur og gott að jólakúlurnar eru ódýrar, nokkrar lentu í plastendurvinnslukassanum!
 
Ef þið eruð að gera þetta við svona lítil kríli látið þið ekki hvarfla að ykkur að gera það án aðstoðar, við vorum tvö og enduðum með slatta af málingarslettum, hálfgerð synd að það skuli ekki vera til mynd af öllu stússinu!
 
P.S. Góð jólagjafahugmynd fyrir ömmur og afa!
 
 

1.11.12

Einn rammi...

...getur sko breytt heilmiklu! Ég er aðeins að nostra við forstofuna mína og datt skyndilega í hug um daginn að þar vantaði fleiri myndir á veggina, núna skil ég bara ekki af hverju mér datt þetta ekki fyrr í hug!
 Fyrir: ósköp venjulegir snagar (með óvenju uppstilltum yfirhöfnum)
 
 
 Eftir: búið að bæta einum myndaramma við
 
 
Gerir gæfumuninn!
 
 
Myndir af litlu fjölskyldunnni og falleg orð
 
 
Textinn er fenginn af þessari mynd sem er héðan
 
 
Ég hefði nú bara notað þessa mynd en hún sneri ekki rétt fyrir rammann og því náði ég bara í stafrænan skrapp pappír (hvað eru mörg p í því?!?), smellti honum inn í Picasa og splæsti í texta, tilbúið!
 
 
 
 
 

31.10.12

Skírnarkort

Ég held bara áfram að sýna ykkur nýleg kort :-)
Eftir þessari ótrúlega sætu fyrirmynd
 
Cute Snail Baby Card
 
gerði ég þetta kort
 
 
fyrir lítinn prins sem að fékk líka voðalega sæta sérmerkta samfellu og smekk frá Jónsdóttur& co.
 
 
ég baslaði nú svolítið við þennan snigil, en þetta hófst á endanum
 
 
svona var kortið innan í.
 
 
 
Svo var það lítil dama sem að fékk svona "kommóðukort".
 

Fyrsta sinn sem að ég prófaði að gera þannig kort. Ég studdist við þessar leiðbeiningar.
 
Fyrst ég er byrjuð að "auglýsa" fyrirtæki og góðar sængurgjafir hérna má ég til með að benda ykkur á þetta leikfang sem heitir Skwish og fæst í Barnasmiðjunni.
 
Manhattan Hringla
 
Dýrt, já. Sniðugt að gefa með einhverjum, já.
 Ótrúlega skemmtilegt og mjög gott til þess að þjálfa fínhreyfingar, var eitt af uppáhalds leikföngunum hjá mínum gutta.