18.3.18

Páskaeggjaleit


Ég hef áður sagt ykkur frá páskaeggjaleitinni úti sem er núna orðin hefð í fjölskyldunni.
Þá fá fullorðnir og börn páskaegg, við felum það úti og allir skemmta sér konunglega við leitina.
Yfirleitt höfum við fengið vorveður eins og það gerist best, sólríkt en kalt. Þá höfum við gjarnan sest niður saman úti og notið þess að fá smá sól á okkur. Við höfum þó ekki látið páskahret slá okkur út af laginu en það urðu kannski ekki mjög erfiðir felustaðir fyrir valinu það árið!


Það eru ekki hefðbundin íslensk páskaegg í þessari leit heldur finnst okkur fullorðna fólkinu gaman að fá eitthvað alveg sniðið að okkur og auðvitað að smakka það sem hinir fengu! Við eigum nokkur pappaegg til þess að nota við þetta tilefni sem er notuð ár eftir ár.


Stundum passar gjöfin illa í pappaegg og þá er bara að láta hugmyndaflugið ráða.
Ég hef nokkrum sinnum notað pappírspoka enda skemmtilegt að skreyta og endurnýta þannig poka sem manni hafa áskotnast.


Eitt árið skreytti ég eggjabakka og fyllti af góðgæti


Börnin hafa hingað til fengið tvö pappaegg, annað með  gotteríi t.d. jarðarber, bláber, hlaup, súkkulaði eða ávaxtaskvísu. Í hinu egginu er lítil gjöf t.d. trekkibíll, fótboltaspil, pokémonkort eða lego. Við höfum svo pakkað eggjunum inn í mismunandi servíettur (t.d. eitt barn með blómaservíettu, næsta með jólaservíettu) þannig að litlir gormar eigi auðvelt með að finna sín egg þó þau kunni ekki að lesa og séu æst í leitinni.


Í fyrra var páskaeggjaleitin í fyrsta sinn hjá okkur, enda komin með góðan garð núna. Guttinn var mjög spenntur fyrir þessu og til þess að stytta biðina og leyfa honum að taka þátt í undirbúningunum gerði guttinn svona líka fínt páskaskilti:


Hann tók einmitt þessa frábæru mynd af skiltinu sínu sjálfur, ósvikin mynd með puttanum inn á!

Ljúfar samverustundir, ferskt loft, sól og súkkulaði fyrir sálina = mæli með.

10.3.18

Pínulitlar páskahugmyndir


Þar sem það styttist í páskana langaði mig að deila með ykkur nokkrum hugmyndum.
Venjulega hef ég keypt hefðbundnar páskagreinar (þessar með gulu blómunum) en síðasta ár ákvað ég að klippa nokkrar greinar af fallega alpareyninum úti í garði.
Mér fannst það ekki koma síður vel út auk þess sem það var ókeypis og umhverfisvænna!


Við höfum oft sent páskagotterí til vina og vandamanna í Þýskalandi.
Í fyrra fannst mér eins og enginn þyrfti á meira súkkulaði að halda en ákvað í samvinnu við guttann að senda svona ferlega sæt perlupáskaungakort.


Við fengum svo í páskagjöf svona æðisleg sumarblóm- frábær hugmynd sem að nýtist vel og þarf ekki að kosta mikið.

20.1.18

Húsið málaðFyrir einu og hálfu ári fluttum við úr yndislegu íbúðinni okkar og fallegt og mátulega stórt hús.
Litirnir á húsinu voru þó ekki alveg að okkar smekk og mig langaði til að sýna ykkur "fyrir&eftir" myndir.


Húsið var í raun þrílitt, gult og rautt til skiptis eftir hliðum og svo liggur klæðningin líka ólíkt og það var dregið fram með litunum. Gluggar, hurðir og þakkantur var svo hvítt.


Við völdum dökkbláan lit sem nýtur sín vel með hvítum gluggum og þakkanti.

Reyndar náðum við ekki að mála allt húsið áður en síðasti vetur skall á og því var húsið FJÓRLITT í marga mánuði......sem að leit mjög einkennilega út! Mikið sem ég var glöð þegar við náðum að klára að mála það allt núna í sumar.


Sonurinn túlkaði fjórlita húsið okkar svona á málverki


Nokkrar myndir í viðbót til þess að sýna ykkur breytinguna:Við erum afar ánægð með hvað nýi liturinn kemur vel út.
Núna er þetta orðið húsið okkar, enda líður okkur mjög vel hér.Svo að öllu sé haldið til haga er gott að taka fram að "fyrir" myndirnar koma frá fasteignasölunni.

Liturinn sem við völdum á húsið heitir Miðnætti U-753 og er frá Flugger og ég borgaði fullt verð fyrir málninguna.

21.8.17

5 ára Hvolpasveitarafmæli


Fyrir rúmu ári fagnaði guttinn 5 ára afmælinu. Við vorum nýlega flutt og því fór meiri tími í að raða í hillur og reyna að fækka kössunum en skreytingar það árið.
Guttinn valdi að hafa hvolpasveitarafmæli og nokkrar einfaldar skreyti hugmyndir komust í framkvæmd.


Eins og undanfarin ár sendum við út boðskort. Við fundum þetta ókeypis til útprentunar á netinu.


Guttanum fannst ekki leiðinlegt að skreyta umslögin með hvolpasveitarlímmiðum


Við máluðum fótspor á stéttina að húsinu, þessir guttar voru sérlega vandvirkir og áhugasamir


Ég fann einhverja mynd af fótspori á netinu, prentaði út og klippti út skapalón


Við notuðum þekjumálningu sem skolaðist í burtu á nokkrum mánuðum.
Auðvitað voru sporin í hvolpasveitarlitunum.
Hvolpasporin vöktu mikla hrifningu hjá litlu afmælisgestunum og við skemmtum okkur ekki síður við að mála þau á stéttina.


Borðskrautið var einfalt, örfá hvolpasveitarleikföng og svo prentuðum við út skraut á hvern disk
(sem að afmælisbarnið klippti sjálft út)


Afmælisbarnið skrifaði líka sjálft á sætisspjöldin


Gestirnir fóru svo heim með lítinn gjafapoka með ávaxtarúllu og pappírsskrauti sem að afmælisbarnið gataði og vildi endilega hafa með!

"Hvolpasveit, o,o,ó
hvolpasveit, o, o, o, ó
hvolpasveit!"

6.8.17

"When I´m 64" Bítlaafmæli


Þegar hún mamma mín fagnaði 64 ára afmælinu kom ekkert annað til greina en að hafa Bítlaþema.

Við byrjuðum daginn við Vífilsstaðavatn í dásamlegu veðri


Tókum með nesti og nutum í sólinni


Svo léku barnabörnin sér í vatninu, það klikkar ekki að fá að sulla í vatni
( gott að taka með handklæði, aukaföt og jafnvel leikföng)Eftir sólina og sullið héldum við í heim til þess að borða góðan mat saman
Þar tóku bítlarnir á móti gestunum við innganginn, auðvitað límdir á tölustafina 64


Föndrið var einfalt eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan en glettilega tímafrekt
Risamyndir af Bítlunum í bakgrunni og Yellow submarine órói


Textabrot frá Bítlunum í boði Pinterest prentuð út og notuð sem borðskraut


Eftir matinn voru svo bítlaplötur spilaðar á plötuspilara og rifjaðir upp góðir danstaktar.
Barnabörnunum fannst mjög skrýtið að ekki mætti rekast í plötuspilarann, það var svo gaman að horfa á hann snúast hring eftir hring!

Eftir stuttar æfingar í bílskúrnum (á meðan hinir gengu frá eftir matinn!) sungum við systur svo auðvitað "When I´m sixty-four" fyrir afmælisbarnið, við undirleik youtube karaoke.
Þetta litla atriði vakti hvað mesta lukku í afmælinu.


Hérna er lagið góða í flutningi Bítlanna, ef þið eruð ekki nú þegar búin að fá það á heilann!

19.11.16

Fleiri stafróf fyrir litla svampa

Ein af vinsælli færslum hér á blogginu er um íslensk stafrófsplaköt sem henta vel fyrir barnaherbergin.
Það er mikil gróska í þessu og mig langaði til að segja ykkur frá fleirum sem ég hef rekist á í netheimum.


vegglímmiðar í nokkrum litum
gaman að það eru bæði há-og lágstafir og "rétt" a og g

eru einstök listaverk sem sóma sér jafnvel bæði í barnaherberginu og stofunni
plakatið fæst t.d. í Upplifun í Hörpunni og Sveitabúðinni Sóley
einnig er hægt að kaupa plakatið og staka stafi hjá listakonunni
frábær gjafahugmynd fyrir unga sem aldna blóma unnendur
stafrófspönduna frá Ernulandi kannast margir við enda einstaklega falleg
bæði há- og lágstafir og fæst líka með enska stafrófinu


einföld og falleg og fást í nokkrum útgáfum


eru með þessar tvær gerðir
aðra litríka og hina svart/hvíta með ofurhetjum

ég má einnig til með að benda ykkur á þetta stafaspil sem að Eyrún vinkona teiknar
hægt að kaupa hér

Fleiri plaköt og hugmyndir hérna

myndir eru allar fengnar af síðum fyrirtækjanna
þessi færsla er ekki kostuð eða styrkt á nokkurn hátt


16.10.16

Klósettrúllukastalinn


Í dag minnti Facebook mig á að fyrir ári síðan varð þessi klósettrúllukastali til.
Guttinn var lasinn og þetta samvinnuverkefni okkar tók nokkra daga.
Fínasta tilbreyting þegar litlir gormar eru lasnir heima, stutta stund í einu.

Ég er með alls konar krakkaföndurshugmyndir á Pinterest og í þetta sinnið valdi guttinn að gera svona kastala.


Þá kom sér vel að guttinn safnar klósettrúllum af mikilli samviskusemi.
Hinir kassarnir fundust inni eldhússkáp.
Við hjálpuðumst að við klippa klósettrúllurnar en uppröðunin er eftir hans höfði.


Þetta verkefni tók nokkra daga og ég hjálpaði honum svolítið við þetta föndur,
enda úthaldið ekki alltaf mikið þegar maður er lasinn.
Við notuðum alls konar liti af málningu, gimsteina og glimmermálningu.
Guttinn var alveg með á hreinu hvernig kastaladyr eru og klippti þær út sjálfur en fannst þó fráleitt að hafa þær í miðjunni...!


Mamman fékk leyfi til að setja þessar litlu leynidyr á kastalann fyrir kisuna.


Eins og á öllum alvöru kastölum er skrautlegum fánum flaggað.


Það varð meira að segja til lítil saga um kastalann:
Prinsinn og hann átti vonda kisu og líka vonda drottning.
Hún átti heima niðri og hann átti heima efst uppi.
Stundum var hún svo vond að hún þurfti að fara eitthvað annað.
Þegar hún var hætt að vera vond flutti hún aftur heim.

Kastalinn þolir ekki mikið hnjask og við höfum nokkrum sinnum þurft að líma turna aftur á.
Guttinn er enn afar stoltur af þessum litríka og glimmer skreytta kastala ári seinna. 
Það varð meira að segja að flytja hann með viðhöfn þegar við fluttum í vor,
enda konungleg hýbýli.


Hér má sjá hvernig við gerðum lest úr klósettrúllum.